mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

10% verðhækkun á ufsaflökum í erlendri mynt

3. júlí 2009 kl. 15:00

Flestar fiskafurðir hafa lækkað í erlendri mynt undanfarin misseri en þó hefur verð á ufsa og karfa hækkað. Verð á ufsaflökum hefur til dæmis hækkað um 10% að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.

„Segja má að hrina verðlækkana í þorski hafi stöðvast í mars og apríl en eftirspurn eftir þorskafurðum er þó ekki mikil. Verð á afurðum úr öðrum helstu fisktegundum hefur yfirleitt verið stöðugt síðustu vikurnar með fáeinum undantekningum,“ sagði Friðleifur Friðleifsson, framkvæmdastjóri hjá Iceland Seafood, í samtali við Fiskifréttir er rætt var við hann um þróun á verði sjávarafurða.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum þá hækkaði meðaltalsverð allra afurðaflokka um 2% í maí samkvæmt greiningu frá IFS Ráðgjöf. Hefur afurðaverð nú hækkað tvo mánuði í röð eftir níu mánaða samfellda lækkun. „Verðhækkanir milli mánaða geta ráðist af því hvaða afurðir eru sendar út hverju sinni. Á meðan sala á þorski er í þyngri kantinum er ágæt eftirspurn eftir ufsa og úthafskarfa og verð er hátt miðað við fyrri ár. Reyndar höfum við ekki fundið fyrir jafnmikilli eftirspurn eftir ufsa eins og að undanförnu. Segja má að verð á ufsaflökum hafi hækkað um 10% í erlendri mynt á síðustu 6-8 vikum,“ sagði Friðleifur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.