föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

102 þúsund tonnum af makríl landað

10. ágúst 2009 kl. 09:39

Íslensk skip hafa tilkynnt löndun á 101.553 tonnum af makríl á árinu samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu, þar af hafa aðeins 3.100 tonn veiðst utan íslensku lögsögunnar. Leyfi til makrílveiða voru afturkölluð þann 8. júlí s.l., en síðan þá hefur makríll verið að veiðast í töluverðum mæli sem meðafli í veiðum á norsk íslenskri síld.

27 skip hafa veitt makríl í flotvörpu á árinu og 68 skip til viðbótar hafa landað óverulegu magni af makríl veiddum í önnur veiðarfæri eða alls tæplega 11 tonnum, sem mest megnis eru veidd á handfæri, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Því má svo bæta við að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 3/2009, um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2009. Reglugerðin felur í sér að frá og með mánudeginum 10. ágúst 2009 þurfa skip á veiðum á norsk íslenskri síld innan íslenskrar lögsögu að senda dagleg aflaskeyti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar