þriðjudagur, 22. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

120 tonn af blönduðum afla

8. febrúar 2018 kl. 15:43

Akurey AK úr sínum fyrsta alvörutúr

Akurey AK kom úr sinni fyrstu alvöru veiðiferð í byrjun vikunnar og landaði 120 tonnum af blönduðum afla. Um borð voru sérfræðingar frá Skaganum 3X og Verkís til að stilla af margvíslegan búnað og veita áhöfn innsýn í notkun hans og virkni. Eiríkur Jónsson skipstjóri segir að allt hafa virkað mjög vel og óvíst sé hvort þörf sé á liðsinni sérfræðinganna í næsta túr.

gugu@fiskifrettir.is

„Við fórum prufutúr um daginn en þetta er svona fyrsti alvörutúrinn. Við fórum út á þriðjudagskvöld í síðustu viku til að stilla af tækin en héldum svo til veiða aðfaranótt miðvikudags. Við byrjuðum á Eldeyjarbankanum en héldum svo norður í Víkurál og enduðum á Halanum. Það var vitlaust veður allan tímann en aflabrögðin voru góð,“ sagði Eiríkur þegar skipið var statt á Jökultungu. Þar hafði staðið til að taka síðasta daginn áður en haldið yrði í land en það óhapp varð  að trollið festist í botni. Minna varð því að veiðum þann daginn en áformað var. Seinna um kvöldið festist í skrúfu skipsins og var það dregið til Reykjavíkur af Ottó N. Þorlákssyni.

Eiríkur segir mikil viðbrigði að fara af Sturlaugi AK, þar sem hann var áður skipstjóri yfir á Akurey. Viðbrigðin séu ekki síður mikil fyrir alla áhöfnina. Skipið láti einstaklega vel í sjó.

„Það gekk allt mjög vel í tengslum við tækjabúnaðinn og ekkert stórt sem kom upp á. Lestin og kararýmið virkar einstaklega vel og millidekkið að mestu leyti þótt kippa þurfi einstaka atriðum í liðinn.“

Ágæt prófraun

Akurey, systurskip Engeyjar RE og Viðeyjar RE,  kom til heimahafnar á Akranesi í júní síðastliðið sumar og hófst þá vinna við að setja í það slægingarlínu, flokkunarkerfi og sjálfvirkt lestarkerfi með rótex-kælikörum.  Ofurkælingin kælir fiskinn niður í mínus 0,5 til mínus eina gráðu.

„Kjörhitastigið er mínus 0,8 gráður og við erum að ná því í flestum tilfellum. Við erum nú ekki farnir að flaka neinn fisk ennþá en hann lítur óneitanlega vel út óflakaður. Við erum með margar tegundir núna; ýsu, þorsk, karfa og ufsa. Það var ágæt prófraun á kerfið að fá svona blandaðan afla. Vinnan gengur auðvitað best fyrir sig ef aflinn er hreinn. Þetta var því góð prófraun fyrir skip og mannskap því veðrið var líka eins og það var;  nánast aldrei undir 20 metrum á sekúndum og oft meira. En skipið er mjög rólegt og fer vel í sjó. Menn vissu því ekki mikið af veðrinu. Við vorum einmitt að ræða það hve lurkum lamdir við hefðum verið eftir þessi ósköp á Sturlaugi,“ segir Eiríkur.