mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

1.200 tonn af gulldeplu til Akraness

30. nóvember 2009 kl. 16:16

Faxi RE og Ingunn AK komu til hafnar á Akranesi í lok síðustu viku með samtals um 1.200 tonn af gulldeplu til bræðslu. Faxi var inni á föstudag með rúmlega 700 tonna afla og Ingunn kom degi síðar með tæplega 500 tonn, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur veiðin verið léleg á miðunum suður af Reykjanesi síðustu dagana.

Skipum á gulldepluveiðum hefur fjölgað að undanförnu og auk skipa HB Granda, Faxa, Ingunnar og Lundeyjar, hefur Ísleifur VE verið þar að veiðum og nú hafa sömuleiðis Hoffell SU, Jón Kjartansson SU og Bjarni Ólafsson AK bæst í hópinn.

Lundey er að sögn Vilhjálms nú komin með rúmlega 200 tonna afla eftir þrjá daga á veiðum og Faxi er með um 150 tonn eftir tvo daga. Ingunn fór frá Akranesi í gærkvöldi og er því á sínum fyrsta degi.