föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

153 þús. tonna aflasamdráttur í febrúar

11. mars 2008 kl. 15:32

Aflinn í febrúar var 85 þúsund tonn. Það er 153 þús. tonna aflasamdráttur milli ára. Mest munar um 158 þúsund tonnum minni loðnuafla í febrúar í ár. Þorskaflinn minnkaði líka verulega eða úr rúmum 23 þúsund tonnum í febrúar 2007 í 16 þúsund tonn í nýliðnum febrúar eða um 30%.

Botnfiskaflinn í febrúar 2008 var 42.068 tonn en botnfiskaflinn var 46.690 tonn í febrúar 2007. Veiði uppsjávartegunda hefur sjaldan verið minni í febrúar en í ár. Landað 30.871 tonni af loðnu og rúmlega 12 þúsund tonnum af kolmunna.

Afli fiskveiðiársins 2007/2008 var í lok febrúar kominn í 495.724 tonn sem er tæplega 180 þúsund tonnum minni afli en á sama tíma í fyrra. Munar þar mest um minni botnfisk- og loðnuafla á yfirstandandi fiskveiðiári. Á móti kemur að hluta aukinn síldarafli í ár.

Þegar fiskveiðiárið er hálfnað, í febrúarlok, hafa aðeins veiðst 45% aflaheimilda í þorski. Á sama tíma í fyrra var búið að veiða 50% aflaheimilda í þorski. Minnkun þorskafla er því meiri en samdráttur aflamarks í þorski. Ýsuaflinn hefur hinsvegar aukist verulega eða úr 37.093 tonnum í fyrra í 46.296 tonn núna (miðað við slægðan afla).