fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

157 þúsund tonn veiddust í mars

13. apríl 2018 kl. 09:30

Fiskafli íslenskra skipa í mars varð 22 prósentum minni en í mars árið 2017. Hagstofan skýrir frá þessu.

Hagstofan hefur birt tölur um fiskveiði í mars 2018. Alls veiddust 157.277 tonn í mánuðinum, sem er 22 prósentum minni afli en í mars árið 2017. 

Botnfiskafli var rúm 53 þúsund tonn sem er samdráttur um 6% frá fyrra ári, þar af nam þorskaflinn rúmum 31.500 tonnum sem er 8% minni afli en í mars 2017. Ríflega 6 þúsund tonn veiddust af ufsa og rúm 4 þúsund tonn af ýsu. 

Afli uppsjávartegunda nam tæplega 101 þúsund tonnum  sem er 29% minni afli en í mars 2017. Loðna var uppistaðan í uppsjávaraflanum en veiði á henni nam tæpum 82 þúsund tonnum samanborið við tæp 132 þúsund tonn í mars 2017.

Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá apríl 2017 til mars 2018 var 1.232 þúsund tonn sem er 15% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.