föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

200 manns gíslar sómalskra sjóræningja

6. nóvember 2009 kl. 12:00

Um þessar mundir eru níu skip með um það bil 200 sjómönnum í haldi sómalskra sjóræningja. Sjóræningjarnir hafa haldið uppi nánast daglegum árásum á skip í námunda við Seychelles-eyjar síðasta mánuðinn eftir að dró úr monsúnvindinum.

Í síðustu viku tóku sjóræningjarnir tælenskan togara, Thai Union, um 200 mílum norðan Seychelles-eyja og 650 mílum undan ströndum Sómalíu. Í áhöfn eru 27 menn, flestir Rússar.

Spænska túnfiskveiðiskipið Alakrana, sem sómalskir sjóræningjar tóku fyrir meira en mánuði, er ennþá í haldi ræningjanna og liggur við festar nálægt ströndum Sómalíu. Um borð eru 36 sjómenn í gíslingu. Tveir sjóræningjanna reyndu að komast frá skipinu á báti úti á rúmsjó en voru gripnir af spænskum sjóliðum og eru nú komnir til Spánar þar sem réttað verður yfir þeim.

Forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Sómalíu, Omar Abriashid Ali Sharmarke, hefur réttlætt sjóránin með því að mennirnir sem þau stundi þurfi einhvern veginn að draga fram lífið. Þeir hafi áður stundað fiskveiðar með góðum árangri og myndu snúa aftur til þeirra starfa ef þeir væru aðstoðaðir til þess. Ráðherrann kvartaði undan því að skip frá mörgum löndum stunduðu ólöglegar veiðar í lögsögu Sómalíu, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum fis.com.