fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

200 milljóna króna endurbætur á Barða NK

14. desember 2009 kl. 09:43

Nýlokið er umfangsmiklum endurbótum á togaranum Barða NK frá Neskaupstað hjá Slippnum á Akureyri. Fiskvinnslubúnaður skipsins var endurnýjuð að fullu og nemur kostnaðurinn um 200 milljónum króna. Við breytingarnar eykst afkastagetan á hinu nýja vinnsludekki  til muna og er gert ráð fyrir að frystigetan verði allt að 50 tonn á sólarhring.

Allur eldri búnaður var rifinn úr skipinu í heimahöfn þess í Neskaupstað. Fyrirkomulag á vinnsludekki er hannað af Slippnum ehf. Öllum búnaði er komið fyrir á mjög hagkvæman hátt þar sem tekið er tillit til m.a. óska áhafnar um betri vinnuaðstöðu og gott flæði hráefnis frá fiskimóttöku að frystilest skipsins.  Slippurinn ehf. hafði einnig umsjón með öllum undirverktökum og innkaupum.

Í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar kemur fram að það sem veki hvað helst athygli við þetta nýja vinnsludekk sé að öll hönnun,  smíði  og uppsetning  búnaðar sé nær eingöngu unnin  af Íslendingum á Íslandi. Mikill  fjöldi fólks komi að svona verkefni sem sameini íslenskan hátækniiðnað, hugvit og verkkunnáttu.  Verkefnið hefur skapað u.þ.b. 40  störf á verktímanum, en smíði og uppsetning hefur tekið rúmlega 3 mánuði.

Nánar er fjallað um málið á heimasíðu Síldarvinnslunnar, HÉR