föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

250 þúsund tonn veidd af norsk-íslenskri síld

24. nóvember 2009 kl. 15:00

Íslensk skip hafa landað samanlagt tæpum 250 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld á árinu 2009. Enn eru nokkur skip að veiðum í norsku lögsögunni en eftirstöðvar af kvóta þar eru rúm 17 þúsund tonn.

Íslendingar mega veiða um 44 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld í norsku lögsögunni í ár. Nú þegar hefur verið landað tæpum 27 þúsund tonnum og væntanlega er nokkur afli til viðbótar um borð í vinnsluskipum á miðunum. Fimm íslensk vinnsluskip hafa veitt síldina í norsku lögsögunni og er Vilhelm Þorsteinsson EA aflahæst þeirra með um 8.502 tonn.

Íslensk skip veiddu tæp 222 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld í sumar og haust á öðrum svæðum en í norsku lögsögunni. Megnið af þeim afla veiddist í íslensku lögsögunni en veiðin var einnig góð í Síldarsmugunni um tíma. Aflahæsta skipið er Börkur NK með 18.770 tonn.

Samanlagt hafa íslensku skipin veitt tæp 250 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld á árinu og heildaraflinn stefnir í rúm 260 þúsund tonn ef næst að klára kvótann í norsku lögsögunni.