mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

266 krókaaflamarksbátar stunda strandveiðar og 52 bátar í aflamarki

20. júlí 2009 kl. 15:00

Langflestir bátar sem stunda strandveiðar voru með veiðileyfi í krókaaflamarkinu eða aflamarkinu, samkvæmt tölum sem sjávarútvegsráðuneytið birti fyrir stundu.

Í lok síðustu viku voru útgefin leyfi til strandveiða 478 talsins. Samkvæmt tölulegri samantekt frá Fiskistofu, sem gerð var þann 17. júlí sl. og er miðuð við þá 384 báta sem höfðu róið og landað afla, þá höfðu alls 266 bátar með krókaaflamarksleyfi snúið sér að strandveiðum. Flestir þeirra, eða alls 117, stunduðu veiðar frá svæði A en það nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Skagabyggðar. Að auki höfðu 2 bátar sem höfðu krókaaflamarksheimildir en ekki krókaaflamarksleyfi leyst út strandveiðileyfi og hafið veiðar.

Alls höfðu 52 bátar í aflamarkskerfinu snúið sér að strandveiðum, þar af voru flestir á svæði C, sem nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps, eða 17 talsins. Einn bátur með aflamarksheimildir en án aflamarksleyfis, hafði leyst út strandveiðileyfi og hafið veiðar.

Á sama tíma höfðu alls 63 bátar sem voru án veiðiheimilda og án veiðileyfis á yfirstandandi fiskveiðiári, en höfðu áður verið með slíkar heimildir og leyfi, fengið afgreidd leyfi til strandveiða. Flestir þeirra eða alls 33, höfðu leyfi til strandveiða frá svæði A.

Einn bátur sem aldrei hafði stundað fiskveiðar áður, stundar strandveiðar frá svæði A.