mánudagur, 20. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

30 milljónir spöruðust 2018

Guðjón Guðmundsson
18. apríl 2019 kl. 12:00

Varðskipið Þór. MYND/LANDHELGISGÆSLAN

Skip Gæslunnar kaupa olíuna í Færeyjum

Frá síðustu aldamótum hafa skip Landhelgisgæslunnar keypt olíu í Færeyjum. Miðað við olíunotkun varðskipanna aðeins árið 2018 var sparnaður Landhelgisgæslunnar vegna olíukaupanna í Færeyjum rúmar 30 milljónir króna.

Sú stefna hefur verið mörkuð hjá Landhelgisgæslunni að gæta skuli ráðdeildar og aðhalds í rekstrinum. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að vegna þess sparnaðar sem hlotist hafi af olíukaupunum hafi stofnunin átt kost á því að sinna lögbundnu hlutverki sínu betur.

„Ferðirnar eru jafnframt nýttar í gagnlegar æfingar með færeysku landhelgisgæslunni og danska sjóhernum sem Landhelgisgæsla Íslands á í afar góðu samstarfi við. Æfingarnar eru mikilvægur þáttur í starfsemi stofnunarinnar enda eru Færeyjar innan alþjóðlega leitar- og björgunarsvæðisins sem Ísland er ábyrgt fyrir. Sömuleiðis gefst tækifæri til að stunda eftirlit á lögsögumörkum djúpt suðaustur af landinu en það er svæði innan efnahagslögsögunnar þar sem sjaldan gefst tækifæri til að stunda eftirlit,“ segir Ásgeir.

Í fyrra fjölgaði úthaldsdögum varðskipinna frá árinu 2017 en samtals eyddu varðskipin Týr og Þór rúmum 1.300.000 lítrum af olíu og sigldu rúmar 23.000 sjómílur.