sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

4.000 tonn af kolmunna til Vopnafjarðar

7. desember 2017 kl. 08:43

Venus og Víkingur. (Mynd/HB Grandi: Kristján Maack)

Fá íslensk skip á kolmunnamiðunum við Færeyjar.

Tvö skip HB Granda – Víkingur og Venus - komu til hafnar á Vopnafirði í gær og lönduðu um 4.000 tonnum af kolmunna.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu fyrirtækisins þar sem rætt er við Róbert Axelsson, skipstjóra á Víkingi.

„Við höfum verið að veiðum í færeysku lögsögunni og aflinn hefur verið upp og ofan. Kolmunninn er nokkuð dreifður og maður þarf að toga lengi í senn, upp í um 20 tíma, til að fá góðan afla. Stærstu holin okkar hafa verið um 400 tonn og skarpasta veiðin hefur verið eftir að skyggja tekur. Aflinn hefur verið bestur á kvöldin og á nóttunni en lítill yfir daginn,“ segir Róbert en að hans sögn hefur ekki verið mikið af íslenskum skipum á veiðisvæðinu. Þar er hins vegar töluvert af færeyskum og hollenskum skipum.

Veðráttan hefur gert sjómönnum lífið leitt á kolmunnamiðunum. Eftir óveðurskaflana á dögunum gekk veðrið niður og veiðin glæddist en Róbert segir að það bræli hressilega af og til.