þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

54% alls þorsks frá Noregi

Guðjón Guðmundsson
4. maí 2019 kl. 09:00

Norðmenn halda vörumerki sínu hátt á lofti og hafa uppskorið. Aðsend mynd

Stóraukin þorskneysla ungra Þjóðverja.

Norðmenn sjá mikil tækifæri til enn frekari markaðssetningar og sölu á þorskafurðum í Þýskalandi. Í grein sem Gitte Hannemann Mollan, yfirmaður norska sjávarafurðaráðsins fyrir þýskan og pólskan markað, skrifar í Fiskeribladet bendir hún á að á sama tíma og dregur úr neyslu fisks í aldursflokknum 18-34 ára í velflestum löndum á Vesturlöndum aukist hún í Þýskalandi.

Fiskneysla í þessum aldursflokki minnkaði um 46% frá 2012-2017 í Noregi en þessu sé ólíkt farið í Þýskalandi þar sem fiskneysla er orðin mest einmitt í þessum aldursflokki og í aldursflokknum 50-65 ára.

Mollan segir 54% alls þess fisks sem neytt er í Þýskalandi komi frá Noregi. Auk þess sé þess þýski markaðurinn sá næststærsti í heiminum fyrir norskan eldislax. Þjóðverjar séu þekktir fyrir mikla neyslu á rauðu kjöti en nú skipti stöðugt fleiri kjötmáltíðum út fyrir lax eða annan fisk. Í þessu felist tækifæri til að koma á framfæri villtum fiski sem veiddur er af Norðmönnum. Þjóðverjar, sem telji rúmar 80 milljónir manns, séu þó einungis í 10. sæti yfir mestu fiskneytendur heims. 71% Norðmanna kveðst borða fisk tvisvar í viku en einungis 31% Þjóðverja. Stóra breytingin sé aukning í fiskneyslu ungra Þjóðverja.

Tilbúnir réttir

Mollan segir að markaðssetning í lágvöruverslunum eins og Aldi og Lidl hafi skilað góðan árangri. Þá skipti ekki síður máli að framleiðendur hafi verið fljótir að bregðast við kröfum markaðarins. Ekki síður en annars staðar séu ungir Þjóðverjar almennt önnum kafnir. Þeir sækist eftir fljótelduðum, einföldum og hollum máltíðum sem ekki krefjast mikillar skipulagningar. Við þessu hafi framleiðendur brugðist með tilbúnum réttum úr þorski með spínati, sveppum, brokkolí eða vorlauk, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru máltíðir sem tekur 17 mínútur að hita í ofni og hafi mælst vel fyrir.

Upprunalandið

Mollan segir að þessar áherslubreytingar í Þýskalandi hafi ekki gerst á einni nóttu heldur séu árangur skipulagðrar markaðssetningar. Rannsóknir í Þýskalandi sýni að Noregur er í efsta sæti þegar kemur að vitund Þjóðverja um upprunaland þorskafurða. Hlutfall þeirra sem þekktu norskar þorskafurðir jókst úr 34% árið 2017 í 41% á síðasta ári. Ennfremur hafi val neytenda á norskum þorski umfram annan þorsk aukist úr 19% í 21% á sama tíma. Mollan segir Norðmenn geta glaðst yfir árangrinum sem verður á sama tíma og Íslendingar hafi aukið úrval ferskra þorskafurða inn á þennan sama markað.

Vörumerkið

Virðisauki af margvíslegu tagi hafi fylgt uppbyggingu vörumerkisins Seafood from Norway. Norska sjávarafurðaráðið hafi til að mynda komið skilaboðum á framfæri undir þessum kjörorðum í stærstu og mikilvægustu tímaritunum í Þýskalandi. Þá hafi verið unnið að viðamiklum almannatengslum og ráðið verið sýnilegt í hverjum mánuði í Fischmagazine, mikilvægasta miðli sjávarútvegsins í Þýskalandi, gefið út fréttabréf til helstu aðila innan þýsks sjávarútvegs, smásöluverslunar og fjölmiðla, verið sýnilegt á samfélagsmiðlunum og þátttakandi í þeim viðburðum sem geta styrkt markaðsstöðu norskra sjávarafurða og upprunavitund neytenda. Mollan segir að stærstu einstöku vöruliðirnir í útflutningi til Þýskalands séu lax og síld en slá megi því föstu að hlutdeild þorsks, ýsu, ufsa og rækju eigi eftir að aukast á næstunni.