sunnudagur, 26. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

600 þúsund lifandi laxaseiði flutt til Noregs

29. júlí 2009 kl. 12:16

Nýlega  lauk rúmlega vikulöngu verkefni hjá Íslandsbleikju, dótturfyrirtæki Samherja hf., með því að skip með 600 þúsund lifandi laxaseiðum afhenti þau í kvíar í Kirkenes í Norður Noregi. Þetta er mesta magn af seiðum sem flutt hefur verið milli landa á þennan hátt en verðmæti farmsins er um 6 milljónir Norskra króna eða um 120 milljónir Íslenskra króna.

Laxaseiðin voru alin í eldisstöð Íslandsbleikju í Grindavík og Íslandslaxi að Núpum í Ölfusi og eru um ársgömul, að meðaltali 100 grömm að þyngd. Flutningurinn hófst 3. júlí með því að seiði voru flutt með bíl niður að bryggju í Þorlákshöfn og þaðan fleytt um borð í brunnbátinn Romaster frá Noregi.  Skipinu var síðan siglt til Grindavíkur þar sem seiðum  var dælt í gegn um plastlögn, út í skipið sem var staðsett um 400 metra frá landi og tók dælingin um sólarhring.

Skipið er það stærsta sem er sérútbúið til þess að flytja lifandi fisk og flutningur á milli landa, með þetta mikið magn svo langa vegalengd, er einsdæmi, segir á heimasíðu Samherja.