miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

64% af makríl á betur borgandi markaði

22. desember 2018 kl. 07:00

Makríll á ís.

Norðmenn fluttu út sjávarafurðir á fyrstu ellefu mánuðum ársins, að laxi meðtöldum, fyrir 1.300 milljarða íslenskra króna.

Útflutningur Norðmanna á sjávarafurðum fyrstu ellefu mánuði ársins er rétt tæpir 1.300 milljarðar ÍSK. Aukning er í útflutningi jafnt á ferskum og frystum þorski. Í nóvember fluttu Norðmenn út 2.600 tonn af ferskum þorski, þar með töldum flökum, fyrir tæpan 1,5 milljarð króna, sem er magnaukning um 3% miðað við sama mánuð 2017 og 1% aukning í verðmætum. Mest var flutt út af ferskum þorski til Danmerkur og Svíþjóðar. Þetta kemur fram á vefsíðu samtaka norskra útgerðarmanna, www.fiskebat.no.

Fyrstu ellefu mánuði ársins fluttu Norðmenn út 61.500 tonn af ferskum þorski fyrir 31,5 milljarða ÍSK miðað við gengi dagsins. Þetta er 5% minnkun í magni miðað við sama tímabil 2017 en verðmætaaukning upp á 2%.

Þá fluttu Norðmenn út 45.000 tonn af síld fyrir 6,1 milljarð ÍSK í nóvember sem er 26% minna magn en í nóvember 2017. Fyrstu ellefu mánuðina nam útflutningurinn 262.000 tonnum að andvirði 32,4 milljarða ÍSK.

Metverð fyrir makríl

Í nóvember fluttu Norðmenn út 66.000 tonn af makríl fyrir 15,7 milljarða ÍSK sem er 23% meiri verðmæti en í nóvember í fyrra. Japan og Kína eru stærstu markaðirnir. Það sem af er árinu hafa Norðmenn flutt út 236.000 tonn af makríl fyrir tæpa 50 milljarða ÍSK. Þetta var um fjórðungi minni útflutningur en fyrir sama tímabil 2017. Útflutningur á hærra borgandi markaði á síðastliðnu hausti var 64% í makríl samanborið við 60% í fyrrahaust. Þannig jókst hlutdeild Japans í markílútflutningi Norðmanna úr 26% í 34% á þessu hausti.