miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

70% aukning á þorskafla í júní

13. júlí 2009 kl. 16:49

Botnfiskaflinn í júní síðastliðnum var 42.266 tonn samanborið við 28.632 tonn í júní í fyrra. Aflaaukningin er því 47,6% milli mánaða áranna 2008 og 2009, að því er fram kemur í frétt frá Fiskistofu.

Þorskaflinn var 12.332 tonn en var 7.254 í júní 2008. Er það 70% aukning í þorskafla. Aukning er í afla flestra annarra botnfisktegunda. Meðal annars jókst afli í ýsu um 860 tonn í júní úr 5.142 tonn í júní 2008 í 6.002 tonn í síðasta mánuði. Veruleg aukning var meðal annars einnig í ufsa, úthafskarfa, grálúðu, skötusel en samdráttur varð í fáeinum tegundum s.s. skarkola og sandkola.

Uppsjávaraflinn í júní 2009 var 83.836 tonn en var 30.071 tonn á sama tíma í fyrra. Þessi aukning helgast af meiri makrílafla í síðasta mánuði sem var 38.989 þúsund tonn en var á sama tíma í fyrra 2.433 tonn. Afli úr norsk-íslenska síldarstofninum var einnig umtalsvert meiri  í síðasta mánuði en á sama tíma í fyrra, 44.227 tonnum var  landað en 27.520 tonnum á sama tíma í fyrra.

Umtalsverð aukning var í rækjuafla í júnímánuði. Alls var landað 801 tonni af rækju samanborið við 149 tonn á sama tíma í fyrra.