sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

90 milljónir til vöktunar í laxveiðiám

Svavar Hávarðsson
14. desember 2017 kl. 12:32

Í texta frumvarpsins segir að mikilvægt sé „að fylgja niðurstöðum áhættumats Hafrannsóknastofnunar eftir, sannreyna og uppfæra það reglulega með viðamikilli vöktun.“

Sérstök 90 milljóna króna fjárheimild er eyrnamerkt til vöktunar Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum, segir í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar.

Í texta frumvarpsins segir að mikilvægt sé „að fylgja niðurstöðum áhættumats Hafrannsóknastofnunar eftir, sannreyna og uppfæra það reglulega með viðamikilli vöktun. Vöktunin fer fram með myndavél í ám, merkingu á öllum seiðum sem fara í eldi, sýnatöku úr fiskum og seiðum í ám og greiningu á erfðaefni.“

Hér er vísað til málefnasviðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem eitt af yfirlýstum markmiðum er að stunda rannsóknir og vöktun áhrifa fiskeldis á lífríkið „sem stuðla að því að við uppbyggingu fiskeldis verði gætt ítrustu varúðar í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.“

Einnig er vísað til niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar frá því í sumar, en þá var áhættumat stofnunarinnar birt.

Eins og Fiskifréttir greindu frá á þeim tíma voru niðurstöður matsins að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land.

Ein umdeildasta niðurstaða matsins var þó að Hafrannsóknastofnun leggur til að ekki verði leyft eldi á frjóum laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá.

Unnið var áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Matið var unnið í samstarfi með erlendum sérfræðingum á sviði stofnerfðafræði.

„Áhættumatið verður sannreynt og uppfært reglulega með viðamikilli vöktun í laxveiðiánum. Getur það leitt til aukningar eða minnkunar á æskilegu leyfilegu magni á frjóum laxi í sjókvíaeldi,“ sagði í áhættumatinu.