miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti dróst verulega saman á milli ára

10. ágúst 2017 kl. 09:15

Fiskur

Samdrátt í aflaverðmæti má helst rekja til styrkingar krónunnar.

Árið 2016 var afli íslenskra skipa rúm 1.067 þúsund tonn, 252 þúsund tonnum minni en árið 2015. Aflaverðmæti fyrstu sölu var rúmir 133 milljarðar króna og dróst saman um 12,1% frá fyrra ári. Samdrátt í aflaverðmæti má helst rekja til styrkingar krónunnar.

Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar, en þar segir jafnframt:

Alls veiddust ríflega 456 þúsund tonn af botnfiski árið 2016 sem er 4,7% meira en árið 2015. Þrátt fyrir aukið magn dróst verðmæti botnfisktegunda saman á milli ára. Aflaverðmæti úr sjó nam 92,6 milljörðum króna árið 2016 og dróst saman um 9,9% frá fyrra ári.

Sem fyrr veiddist mest af uppsjávartegundum, en alls veiddust tæp 575 þúsund tonn árið 2016 sem er samdráttur um 275 þúsund tonn miðað við árið 2015. Munar þar mestu um ríflega 252 þúsund tonna samdrátt í loðnuafla. Verðmæti uppsjávarafla árið 2016 nam rúmum 27,8 milljörðum króna og dróst saman um 19,6% frá árinu 2015 þegar verðmætið nam rúmum 34,6 milljörðum.

Tæp 24 þúsund tonn af flatfiski veiddust árið 2016 sem er 1,9% aukning frá fyrra ári. Verðmæti flatfiskafurða nam tæpum 9,1 milljarði króna og dróst saman um 7,9% frá fyrra ári. Af skel- og krabbadýrum veiddust 12,5 þúsund tonn sem er 23,7% meira en árið 2015. Verðmæti skel- og krabbadýraafurða dróst hins vegar saman og nam tæpum 3,5 milljörðum króna samanborið við tæpa 4 milljarða árið 2015.