mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti eykst um 12 milljarða

17. nóvember 2009 kl. 10:52

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 75 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins 2009, samanborið við rúma 63 milljarða yfir sama tímabil 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um 12 milljarða eða 19% á milli ára. Aflaverðmæti í ágústmánuði nam 10 milljörðum króna miðað við 9 milljarða í ágúst 2008.

Aflaverðmæti botnfisks var í lok ágúst orðið 52 milljarðar króna á árinu sem er aukning um 16,5% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam tæpum 45 milljörðum. Verðmæti þorskafla var um 23 milljarðar og jókst um 9,5% frá árinu 2008.

Aflaverðmæti ýsu nam um 10 milljörðum og stóð nokkurn veginn í stað milli ára. Verðmæti karfaaflans nam 6 milljörðum, sem er 34,7% aukning frá fyrstu átta mánuðum ársins 2008, og verðmæti ufsaaflans jókst um 5,1% milli ára í 4,2 milljarða króna. Verðmæti annars botnfisksafla jókst í heild um 31,9% miðað við fyrstu átta mánuði ársins 2008.

Verðmæti flatfiskafla nam rúmum 7 milljörðum króna í janúar til ágúst 2009 sem er 74,5% aukning frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla jókst um 11% milli ára og nam rúmum 15 milljörðum króna frá janúar til ágúst 2009. Munar þar mestu um verðmæti síldarafla sem nam 7,2 milljörðum samanborið við 4,7 milljarða í fyrra og makríl að verðmæti 4,2 milljarðar samanborið við 3 milljarða 2008.

Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands, HÉR