fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti eykst um 21%

16. febrúar 2009 kl. 09:37

Fyrstu ellefu mánuði ársins 2008

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 91 milljarði króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2008 samanborið við 75,1 milljarð á sama tímabili árið 2007, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Aflaverðmæti hefur því aukist um 15,8 milljarða eða 21,1% á milli ára. Aflaverðmæti í nóvember nam 11,1 milljarði miðað við 6,1 milljarð í nóvember 2007.

Aflaverðmæti botnfisks frá janúar til nóvember 2008 nam 64,1 milljarð og jókst um 13,5% miðað við sama tímabili árið 2007. Verðmæti þorskafla var um 29 milljarðar og jókst um 7,3% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 14,2 milljörðum og jókst um 5,8% en verðmæti karfaaflans nam 8,3 milljörðum, sem er tæp 48% aukning frá sama tímabili árið 2007. Verðmæti ufsaaflans jókst einnig umtalsvert, það nam tæpum 5,7 milljörðum sem er 43,1% aukning miðað við fyrstu ellefu mánuði ársins 2007.

Verðmæti flatfiskafla frá janúar til nóvember nam 5,7 milljörðum og jókst um 42,7% frá fyrra ári. Aflaverðmæti uppsjávarafla nam tæpum 20 milljörðum, sem er 46,1% aukning miðað við fyrstu ellefu mánuði ársins 2007. Verðmæti síldaraflans frá janúar til nóvember nam tæpum 11 milljörðum sem er 122,9% aukning frá sama tímabili árið 2007. Verðmæti makríls jókst einnig mikið á milli ára, nam 4,6 milljörðum samanborið við 1,6 milljarð fyrstu ellefu mánuði ársins 2007.  

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 33,7 milljörðum króna sem er aukning um 9,9% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 1,1% milli ára og nam 12,2 milljörðum fyrstu ellefu mánuði ársins. Aflaverðmæti sjófrystingar nam 30,7 milljörðum og jókst um 36,8% og verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 11,2 milljörðum, sem er 39,1% aukning frá sama tímabili árið 2007.