mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti jókst um 32% fyrstu tvo mánuðina

15. maí 2009 kl. 09:29

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæpum 16 milljörðum króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2009 samanborið við 12,1 milljarð á sama tímabili 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um 3,8 milljarða eða 31,5% á milli ára. Rétt er að hafa í huga að gengi íslensku krónunnar hefur breyst mikið á þessum tíma. 

Aflaverðmæti botnfisks var í lok febrúar orðið 12,5 milljarðar og jókst um 26,9% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam tæpum 9,9 milljörðum.

Verðmæti þorskafla var um 7 milljarðar og jókst um 36,6% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam rúmum 2,3 milljörðum og dróst saman um 12,2%, en verðmæti karfaaflans nam rúmum 1,5 milljörðum sem er rúm 112% aukning frá fyrstu tveimur mánuðum ársins 2008. Verðmæti ufsaaflans dróst saman um 15,4% milli ára í 604 milljónir.

Verðmæti flatfiskafla nam rúmum milljarði króna í janúar til febrúar 2009, sem er 107,7% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 34,4% milli ára og nam 2,3 milljörðum.  

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 7,3 milljörðum króna og jókst um 65,4% frá fyrra ári 2008. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 16,5% milli ára og var um 2,7 milljarðar.

Aflaverðmæti sjófrystingar var 3,4 milljarðar og stóð nokkurn veginn í stað milli ára en verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam rúmum 2 milljörðum, sem er 30,3% aukning frá árinu 2008.

Nánari upplýsingar eru á vef Hagstofunnar,HÉR