mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflaverðmæti smábáta 2008: Happadís og Bárður efst

20. ágúst 2009 kl. 15:00

Krókaaflamarksbáturinn Happadís GK og Bárður SH, sem er smábátur með aflamark, skiluðu mestu aflaverðmæti á árinu 2008 í flokki smábáta, samkvæmt samantekt Fiskifrétta sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Í samantektinni er byggt á árlegum tölum frá Hagstofu Íslands sem birtust nýverið. Aflaverðmæti smábáta jókst nokkuð á síðasta ári frá árinu á undan. 31 smábátur skilaði 100 milljóna króna aflaverðmæti eða meira árið 2008 en 20 bátar náðu þessu marki árið 2007.

Happadís GK skilaði mestu aflaverðmæti krókaaflamarksbáta á árinu 2008 annað árið í röð, eða 195 milljónum króna, og afli bátsins var 867 tonn upp úr sjó á árinu. Þetta er nánast sama aflaverðmæti og báturinn var með árið 2007 en þá var aflinn nokkru meiri eða 1.108 tonn.

Í Fiskifréttum er birtur listi yfir þá krókaaflamarksbáta sem skiluðu 70 milljónum króna eða meira í aflaverðmæti á árinu 2008. Inn á þann lista komst 51 bátur og þar af eru 27 bátar með hundrað milljóna króna aflaverðmæti eða meira.

Fimmtán smábátar með aflamark voru með 50 milljónir í aflaverðmæti eða meir á árinu 2008, þar af fóru fjórir bátar yfir 100 milljónir. Bárður SH skilaði mestu aflaverðmæti í þessum flokki og var með 164 milljónir króna. Afli upp úr sjó var 935 tonn. Vegna breytinga var Bárður aðeins gerður út fram í september á síðasta ári. Útgerð hans leigði Happasæl KE það sem eftir var ársins. Aflaverðmæti á Happasæl á þeim tíma var 27 milljónir. Heildaraflaverðmæti útgerðarinnar á Bárði og síðan Happasæl var því 191 milljón króna árið 2008.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.