miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áframhaldandi sýking í sumargotssíld á hrygningarslóð

16. júlí 2009 kl. 09:42

Sýking í íslensku sumargotssíldinni er ekki í rénun samkvæmt nýlegum rannsóknaleiðangri og Hafrannsóknastofnun mælir ekki með veiðum á næstu vertíð nema frekari rannsóknir leiði í ljós jákvæðar niðurstöður, að því er Jóhann Sigurjónsson, forstjóri stofnunarinnar, segir í samtali við Fiskifréttir sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Hafrannsóknastofnun sendi jafnframt frá sér fréttatilkynningu í morgun þar sem gerð er grein fyrir 10 daga rannsóknaleiðangri Bjarna Sæmundssona á hrygningarslóð íslensku sumargotssíldarinnar. Meginmarkmið leiðangursins var að meta sýkingu í stofninum af völdum frumdýrsins Ichthyophonus (skaðlaust mönnum, sbr. frétt frá Matvælastofnun 2. des. 2008). Eins og kunnugt er þá var gert viðvart um þessa sýkingu í stofninum í október sl. haust. Mat Hafrannsóknastofnunarinnar sýndi að 32% stofnsins hafi verið sýktur yfir síðustu vetrarvertíð og var gert ráð fyrir að afföll í stofninum af þess völdum hafi verið sem því næmi.

Niðurstöður leiðangursins nú í júlí benda til að 30.5% hrygningarstofnsins sé sýktur. Ekki eru því enn vísbendingar um að sýkingin sé á undanhaldi. Auk mælingar á sýkingarhlutfalli í stofninum náðist bergmálsmæling á stærð stofnsins, sem ber allvel saman við mælingar á síðasta vetri, að teknu tilliti til áætlaðra affalla í stofninum.

Á öllum hrygningarsvæðunum frá Breiðafirði og suður með landinu að Hornafirði var umtalsverð sýking, þó einhver breytileiki væri þar á. Hæsta sýkingarhlutfallið (40%) reyndist vera um miðbik svæðisins, eða við Vestmannaeyjar og undan Dyrhólaey, en lægsta við Ingólfshöfða (20%). Eðli sýkingarinnar er þannig að hrogn sýktra hrygna eru ósýkt, þó geta megi sér til að eggin kunni að vera minni og ólífvænlegri hjá mest sýktu fiskunum sem hafa auðsjáanlega skerta hrygningargetu. Talið er að sýking eigi sér ekki stað fyrr en að ungviðið fer að taka til sín fæðu.

Eins og fram kom í Ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar á s.l. vori var ekki unnt að veita aflaráðgjöf um veiðar úr stofni íslensku sumargotssíldarinnar fyrr en mat á sýkingu yfir sumarmánuðina lægi fyrir. Þar kom jafnframt fram að án þess að verulega dragi úr sýkingu af völdum Ichthyophonus sýkilsins væri ekki ráðlegt að mæla með verulegri veiði á komandi vertíð.

Í ljósi þessa og á grundvelli úttektar Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi stofnsins á s.l. vori, leggur stofnunin til að ekki verði veitt leyfi til veiða úr stofni íslensku sumargotssíldarinnar fyrr en í fyrsta lagi að aflokinni mælingu á sýkingarhlutfalli á síld veiddri í nót og að jákvæðari niðurstöður um sýkingarhlutfall liggja fyrir. Áfram mun verða fylgst náið með framvindu sýkingarinnar, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.