miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágætis karfaveiði miðað við árstíma

6. febrúar 2009 kl. 12:39

,,Þetta var að mörgu leyti hin ágætasta veiðiferð. Við vorum að veiðum vestan við landið og vorum aðallega í karfa en fengum einnig þó nokkuð af þorski og dálítið af grálúðu. Það var reyndar mesta furða hve karfaveiðin var góð því janúarmánuður hefur aldrei þótt sérstaklega góður tími á þeim veiðum,“ segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE, á heimsíðu HB Granda, en skipið nýkomið til hafnar eftir 33 daga veiðiferð.

Að sögn Kristins fengust um 770 tonn af fiski upp úr sjó í veiðiferðinni og þar af voru rúmlega 500 tonn af karfa og þá aðallega gullkarfa. Í afurðum talið nam aflinn 530 tonnum og aflaverðmætið losaði 130 milljónir króna.

,,Við vorum aðallega á Hampiðjutorginu og í Skerjadjúpinu og undir venjulegum kringumstæðum hefðum við verið á höttunum eftir ufsa og ýsu á þessu árstíma. Það var hins vegar óvenju lítið af þeim tegundum að þessu sinni. Það er eins og að ýsan hafi fært sig í auknum mæli norðar með hlýnandi sjó og þá spilar það líka inn í ýsuveiðina að menn spara við sig þorskinn um þessar mundir en það veiðist jafnan þó nokkuð af ýsu með þorskinum. Hvar ufsinn heldur sig, vitum við ekki,“ segir Kristinn Gestsson.