miðvikudagur, 20. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áki í Brekku og Elli P SU mokveiða fyrir austan

1. febrúar 2018 kl. 09:26

Elís Pétur Elísson. MYND/GUGU

Uppistaðan stór þorskur og ýsaElís Pétur Elísson, útgerðarmaður og fiskverkandi á Breiðdalsvík, sem gerir út bátana Áka í Brekku SU og Ella P SU undir merkjum Goðaborgar ehf., hefur keypt húsnæði á staðnum til að hefja vinnslu á byggðakvóta sem hann ásamt fleirum fengu úthlutað á síðasta ári.

gugu@fiskifrettir.is

Elís segir að menn hafi ekki ennþá getað nýtt byggðakvótann heldur byggt afkomuna á eigin kvóta og leigukvóta. Elís er núna að breyta húsnæðinu sem hann festi nýlega kaup á og útbúa það fyrir vinnsluna.

„Við ætlum að nýta þetta húsnæði alla vega til þess að byrja með og munum byrja rólega og sjá hvernig þetta gengur. Húsið er frábærlega staðsett niður við höfn og mun vonandi hleypa lífi í hafnarsvæðið“.

Elís er að ráða starfsmenn í vinnsluna og lítur björtum augum til framtíðar.

Áki í Brekku með hátt í 200 tonn

„Það er alltaf mokveiði á þessum árstíma hérna fyrir austan. Menn stíma samt í 3-6 tíma til að komast í góða veiði. Áki í Brekku er að landa núna 11 tonnum og var með 6 tonn í gær,“ sagði Elís þegar rætt var við hann sl. þriðjudag. Uppistaðan er stór þorskur og ýsa. Hann segir að svona mokveiði geti haldist út allan febrúar.

Elís keypti Áka í Brekku í nóvember til þess að útgerðin stæði betur að vígi við nýtingu á byggðakvótanum. Hann er sjálfur kominn í land og ætlar að einbeita sér að koma vinnslunni í gang. Frá 20. nóvember til 20. desember fiskaði Áki um 80 tonn og aflabrögðin eru svipuð núna í janúar. Hann hefur því reynst útgerðinni vel.

Fram að þessu hefur útgerðin reitt sig á leigukvóta og Elís segir það ganga upp þótt hann myndi ekki standa í því til lengri tíma. Hann segir fiskverð nú í samanburði við leiguverð á kvóta frekar hagstætt miðað við oft áður.

Skoða útflutning til Hirtshals

„Á þessum árstíma er að minnsta kosti helmingur aflans yfir 5 kg þorskur og ýsan er bara stór. Þetta er dýrasta og besta hráefnið sem fæst. Að þessu leyti lítur þetta ágætlega út. En það sem skekkir myndina eru veiðigjöldin sem eru alveg út úr kortinu fyrir þessar litlu útgerðir.“

Þegar dregur úr þorskveiðinni fyrir austan hefst steinbítsveiði og Elís hyggur gott til glóðarinnar með báða báta.

„Norræna er ágætur kostur fyrir okkur til að flytja fisk beint út. Við erum að skoða hvort hagkvæmt geti verið að flytja út þorsk og steinbít til Danmerkur. Á mörkuðunum í Hirtshals og Hanstholm eru allt önnur verð í gangi en hér heima. 7.-21. desember var meðalverð á tveggja til fjögurra kílóa þorski 580 krónur í Hirstshals. Hérna fást 220-230 krónur fyrir sama fisk. Við þurfum að finna út hver kostnaðurinn er en þetta ætti að vera gerlegt með hagkvæmum einingum.“