mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ala fisk til að éta lús

8. desember 2009 kl. 12:17

Norðmenn hafa íhugað ýmsar aðgerðir í baráttunni við lúsina sem leggst á eldislaxinn og veldur gríðarlegu fjárhagstjóni. Fimm eldisfyrirtæki í Noregi eru nú að kanna möguleikana á því að hefja sameiginlega eldi á leppefisk eða varafiski sem reynst hefur liðtækur við að éta lúsina af laxinum.

Ekki er til nóg framboð af lifandi varafiski úr sjó sem sleppt er í eldiskvíarnar og því kviknaði sú hugmynd að ala mætti þennan fisk upp gagngert til þess að nota hann í áðurnefndum tilgangi.

Stórfyrirtækið Marine Harvest, sem vinnur að þessari hugmynd ásamt öðrum, hefur náð árangri við að klekja út hrogn varafisksins og á nú þegar 25.000 seiði sem nota mætti í þetta verkefni. Rætt hefur verið um að finna eldinu stað í þorskeldisstöð í Lovund í Norður-Noregi sem ekki er lengur í rekstri, að því er fram kemur á vefnum IntraFish.