miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Alþingi framlengir aðlögun að kvótaþaki smábáta

9. mars 2009 kl. 16:24

LS finnst aðlögunartíminn of skammur

Alþingi hefur samþykkt frumvarp sem felur það í sér að aðlögun að kvótaþaki krókaaflahlutdeildar framlengist um eitt ár. Þetta þýðir að frá og með 1. september 2010 má samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 4% af þorski, 5% af ýsu og 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.

Fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda að LS hafi óskað eftir því við fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að aðlögunartíminn yrði lengdur um 5 ár með tilliti til efnahagsþrenginganna. Ráðherra taldi hæfilegan tíma vera 3 ár og mælti fyrir frumvarpi þess efnis í desember sl. en sjávarútvegsnefnd stytti tímann niður í eitt ár og þannig varð frumvarpið að lögum.

LS eru það mikil vonbrigði að sjávarútvegsnefnd skuli hafa gert framangreindar breytingar á frumvarpinu og telur hann alltof skamman.  

 Í athugasemdum með frumvarpinu sagði m.a.:

„Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að vegna sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagslífi er mjög erfitt að fjármagna viðskipti með krókaaflahlutdeildir og því lítill markaður fyrir þær. Þeir aðilar sem enn eru yfir tilsettum mörkum eiga þannig takmarkaða möguleika til þess að komast undir tilskilin mörk. Með því að fresta gildistöku umrædds bráðabirgðaákvæðis er aðilum veittur frekari aðlögunartími. Vænta má að sá frestur geri þeim kleift að komast undir tilsett mörk eftir að markaður fyrir krókaaflahlutdeildir hefur opnast að nýju.“