föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árangurslaus fundur strandríkja um makríl í Edinborg

27. nóvember 2009 kl. 11:43

Fundi strandríkja um stjórn makrílveiða á árinu 2010 var slitið í Edinborg í morgun án þess að niðurstaða næðist. Greint er frá þessu í vefútgáfu norska dagblaðsins VG. Blaðið vitnar til fréttar frá fréttastofunni NTB sem hefur það eftir fulltrúum norska sjávarútvegsráðuneytisins að andrúmsloftið á fundinum hafi verið erfitt og markast af deilum Norðmanna og Evrópusambandsins um veiðirétt þeirra fyrrnefndu innan lögsögu ESB.

Þetta er annar fundur strandríkjanna, þar sem þau freista þess að ná samkomulagi um hvernig skipta skuli makrílkvóta næsta árs á milli sín. Fyrri fundur var í Cork á Írlandi fyrir fjórum vikum. Íslandi er sem fyrr haldið utan við þessa fundi þrátt fyrir ítrekaðar óskir um þátttöku í þeim sem fullgilt strandríki.

Norðmenn og Evrópusambandið hittast um helgina í Brussel, þar sem reyna á að ná samkomulagi í innbyrðis deilu þessara aðila um makrílveiðar í lögsögu ESB. Fyrsti fundur deiluaðila í Bergen var árangurslaus.

Sjávarútvegsráðherra gaf í síðustu viku út reglugerð um makrílveiðar Íslendinga á næsta ári, þar sem heimilt er að veiða 130 þúsund tonn.  Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, fagnaði þessari ákvörðun í frétt í síðustu viku og sagði þá m.a.: „Sem fyrr er strandríkisréttur Íslands hunsaður og við útilokuð frá þátttöku í stjórn veiðanna þrátt fyrir skýlausan rétt okkar þar um. Það var því mjög mikilvægt að tilkynna um áætlaðan afla okkar fyrir fundinn. Þannig geta þessir aðilar tekið tillit til hans við ákvörðun um afla sinn á næsta ári og tryggt að heildarveiðin verði innan marka."

Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.