sunnudagur, 22. apríl 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arctic Prime án makrílkvóta við Austur-Grænland

15. júní 2017 kl. 14:00

Makrílhol á Iliviliq. Arctic Prime fær ekki makrílkvóta í grænlenskri lögsögu. MYND/SIGURÐUR DAVÍÐSSON

Kvótinn ákvarðaður 66.000 tonn

Grænlenska landsstjórnin hefur gefið út 66.000 tonna makrílkvóta við Austur-Grænland. Til samanburðar má nefna að úthlutun fyrir Austur-Grænland í fyrra var 85.000 tonn. Athygli vekur að Arctic Prime Fisheries, sem er að stórum hluta í eigu íslenska útgerðarfélagsins Brims hf. fær enga úthlutun en fékk á árinu 2015 8.000 tonn.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, vildi ekki tjá sig um ástæður þess að fyrirtækið fengi ekki úthlutaðan makrílkvóta við Grænland og vísaði á forsvarsmenn Arctic Prime Fisheries í Grænlandi. Arctic Prime Fisheries hefur verið með tvö skip við veiðar á makríl í grænlenskri lögsögu, þar á meðal Ilivieq sem áður hét Skálaberg.

46.000 tonn til grænlenskra skipa

Kvótanum er skipt niður á tvo flokka. Í flokki 1 er kvóti upp á 46.365 tonn sem fer til grænlenskra skipa og fær hvert þeirra úthlutað 5.152 tonnum. Þessi skip eru Tasiilaq, Tuneq, Polar Amaroq, Polar Princess, Markus, Polar Nanoq, Tasermiut, Tuugaalik og Svend C. Að minnsta kosti 75% af þessum kvóta verður að veiða á grænlenskum skipum en 25% hans má veiða með skipum sem grænlenskar útgerðir sem eiga skip leigja.

Í flokk 2 er deilt út 20.000 tonna kvóta til fyrirtækja sem ekki eiga skip.