sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Arðsemi í sjávarútvegi mun meiri en almennt gerist

10. janúar 2018 kl. 09:03

Trollið tekið á Vestmannaey VE. (Mynd: Kristinn Freyr Þórisson)

Arðsemi fyrirtækjanna í greininni hefur hins vegar dregist verulega saman allra síðustu ár, og var hvað best 2012.

Arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja er ríflega tvöfalt meiri en í atvinnulífinu almennt.

Frá þessu segir í Fréttablaðinu í dag.

Arðsemi fyrirtækjanna í greininni hefur hins vegar dregist verulega saman allra síðustu ár.

Jónas Gestur Jónasson, yfirmaður sjávarútvegshóps Deloitte, segir í viðtali við Fréttablaðið að „vísbendingar séu um að veiðigjöld séu farin að íþyngja mörgum litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum.

„Þau fyrirtæki sem hafa verið fjárhagslega veikari virðast hafa verið að heltast úr lestinni undanfarin þrjú til fjögur ár og þau verið keypt eða tekin yfir af stærri fyrirtækjum. Það hefur orðið töluverð samþjöppun í greininni. Þróunin er öll í þá áttina.“

Fiskifréttir fjölluðu um greiningu Jónasar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja síðsumars, sjá hér. Þar kom fram að þótt tekjur í sjávarútvegi hafi dregist saman um 26 milljarða frá 2015 til 2016 varð hagnaðurinn engu að síður 55 milljarðar, skuldir halda áfram að lækka og fjárfestingar eru miklar.

Staða íslensks sjávarútvegs er því sterk en hefur engu að síður þyngst nokkuð á allra síðustu árum. Á síðasta ári drógust tekjur greinarinnar saman um 26 milljarða, eða níu prósent, heildaraflinn dróst saman um 19 prósent og verðvísitala sjávarafurða í íslenskri mynt dróst saman um 6,4 prósent.

Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur við Háskóla Íslands, segir í Fréttablaðinu að því hærri sem veiðigjöldin séu, þeim mun meira hraði þau hagræðingu í greininni, enda leiði þau til þess að fyrirtæki sem geti ekki skapað verðmæti til þess að standa undir gjaldtökunni dragist aftur úr.

Í stóru viðtali við Fiskifréttir í ágúst síðastliðinn fjallaði Daði Már heildstætt um veiðigjöldin, þar sem kom fram að þau yrðu að hans mati aldrei stór tekjupóstur fyrir ríkið. 

Í viðtalinu sagði Daði. „Mér finnast hugmyndir manna um umfang rentu í sjávarútvegi á Íslandi oft vera skringilega bjartsýnar. Það þarf ekki annað en að skoða hagtölur til að átta sig á að veiðigjöld verða aldrei neinn meiriháttar tekjustofn fyrir ríkið. Þau leysa aldrei af hólmi til dæmis tekjuskatta. Og þetta hefur pínulítið litað umræðuna, menn hafa séð að einhverju leyti töluverðum ofsjónum yfir hagnaði í sjávarútvegi.“