föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Árið 2010 síðasta toppárið í norsk-íslenskri síld

26. ágúst 2009 kl. 15:00

Árið 2010 er talið verða síðasta toppárið í veiðum á norsk-íslensku síldinni. Árin þar á eftir er því spáð að stofninn minnki smám saman. Ástæðan er léleg nýliðun í 2006, 2007 og 2008 árgöngunum.

Frá þessu er greint í Fiskeribladet/Fiskaren. Haft er eftir Arild Slotte hjá norsku hafrannsóknastofnuninni að menn bíði spenntir eftir því að sjá hvort einhver bati verði í nýliðun ársins 2009. Svar við þeirri spurningu fæst í leiðangri sem farinn verður í september í Barentshafið. ,,Við höfum þó vísbendingar um að þessi árgangur sé einnig veikur,“ segir Arild Slotte.

Bæði norsk-íslenski síldarstofninn og makrílstofninn eru nú í góðu ástandi og útbreiðsla þeirra er mikil. ,,Við vonumst til að kvótar í norsk-íslensku síldinni geti verið óbreyttir á næsta ári en minnki síðan. Kvótar áranna 2011, 2012 og 2013 munu taka mið af veikri nýliðun. Þá er mikil eftirvænting eftir því að sjá hver verður þróun í makrílstofninum,“ segir Arild Slotte. Hann bætir því við að makríllinn sé mjög útbreiddur og í hægum vexti og hugsanlega hafi hann breytt um göngumunstur.