miðvikudagur, 20. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ásbjörn RE kveður með stæl

14. júní 2017 kl. 10:24

Ásbjörn RE ásamt nýju Engey RE sem leysir hann af hólmi.

Fullfermi hjá Ásbirni í síðustu veiðiferðinni undir merkjum HB Granda

„Við skruppum bara út á Fjöll og fiskuðum þar ufsa og karfa. Það var góður afli eða fullfermi, ríflega 120 tonn, en veiðiferðin var ekki nema tæpir þrír sólarhringar,“ segir Einar Bjarni Einarsson í viðtali við heimasíðu HB Granda, en hann var skipstjóri á ísfisktogaranum Ásbirni RE í síðustu veiðiferð skipsins undir merkjum HB Granda.

Í fréttinni segir að nýja skipið Engey RE var í tilraunaveiðiferð á sama tíma þannig að kalla þurfti til afleysingamannskap til að manna Ásbjörn í túrnum.

„Eðlilega fór harðasti kjarninn í áhöfninni í þennan túr með Engey en ég kvarta síður en svo yfir þeim mannskap sem ég fór með. Þetta voru mikið til strákar sem áður hafa leyst af á Ásbirni með góðum árangri undanfarin ár,“ segir Einar Bjarni í viðtalinu og bætir við að liðlega helmingur aflans í túrnum hafi verið milliufsi og svo virðist sem að ufsinn gefi sig meira til í ár en á sama tíma í fyrra.

Ásbjörn verður væntanlega afhentur nýjum eigendum eftir helgi og Einar Bjarni segist vissulega sjá eftir þessu mikla aflaskipi. Sjálfur fór hann í sína fyrstu veiðiferð á Ásbirni árið 1989.

„Við vitum vel að allur aðbúnaður fyrir mannskapinn verður miklu betri um borð í Engey. Það er líka mun stærra og fullkomnara skip en Ásbjörn. Engey er sömuleiðis mjög tæknilega fullkomið skip og við erum undir það búnir að þurfa að læra margt upp á nýtt. Aðgerð aflans er þó óbreytt frá því sem verið hefur og það er sjálfsagt að gleðjast yfir því,“ segir Einar Bjarni í viðtalinu.