föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukið vægi línu við þorskveiðar

30. desember 2009 kl. 08:53

Vægi línu við veiðar á þorski hefur aukist gríðarlega undanfarna áratugi þótt dregið hafi aðeins úr mikilvægi línunnar milli áranna 2008 og 2009. Hlutfall línunnar í þorskafla hefur vaxið úr tæpum 10% árið 1979 í 32,5% á yfirstandandi ári (hlutfallið var hins vegar rúm 37% á árinu 2008) að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Hins vegar hefur hlutur neta á sama tíma fallið úr þriðjungi í rúmlega 11% og botnvörpu úr tæpum 55% í rúm 44%. Hlutdeild dragnótar í þorskafla hefur vaxið umtalsvert og hlutfallslega mest eða úr 0,4% á árinu 1979 til 5,4% á yfirstandandi ári.

Hlutfall þorskaflans sem veiddur var á handfæri var 4,0% á árinu 1979 sem er sama hlutfall og er á yfirstandandi ári. Vægi handfæra jókst verulega með uppgangi smábátaflotans og náði hámarki, tæpum 12% af þorskafla íslenskra skipa, á árinu 1997. Þegar krókabátarnir fóru undir krókaaflamark þá minnkaði hlutur handfæranna á kostnað línu, en krókabátarnir hafa síðan þá nýtt í vaxandi mæli mun afkastameira veiðarfæri, sem er línan, til að veiða aflaheimildir sínar.