mánudagur, 20. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukið öryggi og færri við löndun

Guðjón Guðmundsson
19. apríl 2019 kl. 12:00

Drangey SK. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Létu sérsmíða Kristjánsbúr fyrir Drangey SK

FISK Seafood á Sauðárkróki hefur látið framleiða fyrir sig sérstaka útfærslu af svokölluðu Kristjánsbúri til notkunar í Drangey SK, nýjum ísfisktogara fyrirtækisins. Að sögn Jóns Inga Sigurðssonar, tæknistjóra hjá FISK Seafood, eykur búrið stórlega  öryggi við landanir auk þess sem það flýtir fyrir og sparar mannskap.

Búrið dregur nafn sitt af Dalvíkingnum Kristjáni Guðmundssyni sem slasaðist alvarlega árið 2011 þegar hann varð undir þungum fiskkörum við löndun. Nokkrar útfærslu hafa verið framleiddar af búrunum. Fiskker eru sett í búrið sem tryggir að þau geta ekki losnað og fallið við löndun. Búrið sem Vélsmiðjan Hamar sérsmíðaði fyrir FISK Seafood er þannig gert að í því komist fyrir fimm hæðir af körum.

Vandinn áður við landanir á fiskkörum var sá að hífð voru jafnan fimm kör í einu. Krókar voru festir í neðsta karið sem heldur öllum þunganum. Fyrir gat kom að eyrun á neðsta karinu gæfu sig og stæðan hrunið í hífingu.

5 hæðir af körum í lest Drangeyjar

„Óskar Óskarsson á Dalvík var í samstarfi við Samherja og Promens um hönnun á upphaflega búrinu. Síðan hefur það tekið breytingum og gæðin aukist. Ég vildi láta breyta búrinu í samræmi við það að það eru fimm hæðir af körum í lestinni á Drangey. Annars var búrið framleitt fyrir fjórar hæðir. Í lestum stærri ísfisktogara eru körin á fjórum eða fimm hæðum. Í Málmey eru til að mynda 20-30 stæður með fimm hæðum og afgangurinn með fjórum hæðum. Í Málmey notum við búr sem er gert fyrir fjórar hæðir og við löndum fimm hæða stæðunum með krókum. En í Drangey getum við komið fyrir lyftara í lestinni og létum útbúa þetta fimm hæða búr. Auk þess að stuðla að auknu öryggi snerta körin aldrei bryggjuna þegar þeim er landað í Kristjánsbúrinu. Óhreinindi af  bryggjunni smitast því aldrei í körin. Við þurfum ekki að vigta á hafnarvoginni heldur keyrum við körin beint inn í kæli þar sem við vigtum,“ segir Jón Ingi.

Þegar búrið er híft upp úr lestinni og lokast það sjálfkrafa og körin geta ekki fallið úr því. Jón Ingi segir mikið öryggi fylgja notkun þess. Eftir að menn fóru að nota Kristjánsbúrið hafa ekki orðið löndunarslys hjá FISK Seafood.

Hann segir búrið flýta fyrir löndun. „Það eru líka mun færri sem þurfa að koma að lönduninni. Það nægir að hafa tvo menn ofan í lest; einn á lyftara og annan til aðstoðar. Uppi á bryggju er einn maður á lyftara og annar til aðstoðar og síðan einn kranamaður. Samtals eru þetta því fimm menn við löndun en áður voru þeir þrír til fjórir í lest og samtals 6-7 manns við löndun,“ segir Jón Ingi.