sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

AVS: Auka má nýtingu í bolfiskvinnslu um 8-15%

13. júlí 2009 kl. 11:47

Með því að framleiða hreinsuð vöðvaprótein úr afskurði er hægt að auka heildarnýtingu í bolfiskvinnslu um 8-15% þegar próteinunum er sprautað í flök. Mælingar sýna að þessi aðferð rýrir á engan máta gæði flakanna, að því er fram kemur á vef AVS.

Verkefninu „Framleiðsluferill hreinsaðra vöðvapróteina úr afskurði og kolmunna til nota í flök og tilbúnar afurðir“, sem AVS sjóðurinn styrkti er nú lokið. Unnið var að því að hanna vinnsluferli fyrir vöðvaprótein sem falla til í bolfiskvinnslu, afskurð og fisk af beingörðum og koma þeim í verðmætar afurðir. Lögð var áhersla á að viðhalda eðliseiginleikum svo hægt væri að nota þau beint tilbaka inn í framleiðsluvörur. Þeir eðliseiginleikar sem horft var til voru geleiginleikar og stýring þeirra en þeir veru mjög mikilvægir þegar nýta á próteinin með beinum hætti til að auka gæði afurða, svo sem halda fiskflökum stinnum og safaríkum og gefa tilbúnum vörum svo sem fiskbollum rétta áferðareiginleika.

Niðurstöður verkefnisins eru fullbúin framleiðslulína sem framleiðir vöðvaprótein með réttum eðliseiginleikum svo hægt er að útbúa lausn sem við innsprautun í fiskflök rennur saman við fiskvöðvann og eykur safabindingu og nýtni í fiskvinnslu. Með þessum hætti er hægt að nýta allan afskurð, hreinsa hann í þessu ferli og koma honum til baka inn í flök og auka þar með heildarnýtni fisksins yfir í flök á bilinu 8-15%.

Sjá nánar á www.avs.is