miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Beinagrindur líklegar fosfórnámur framtíðar

svavar hávarðsson
27. desember 2018 kl. 12:00

Eldisfiskur þarf fosfór eins og önnur dýr til að vaxa og dafna - en efnið er takmörkuð auðlind. Mynd/BH

Skortur á fosfór gæti orðið meiriháttar vandamál í náinni framtíð.

Fosfór er mikilvægt steinefni sem bæta verður í fóður eldisfiska til að tryggja eðlilegan vöxt og að þeir þroski heilbrigða stoðgrind. Uppsprettur þessa mikilvæga steinefnis eru hins vegar takmarkaðar á sama tíma og efnið verður sífellt eftirsóttara í margvíslegum iðnaði. Ein náman til þess að afla fosfórs blasir þó ekki við – eða vinnsla þess úr fiskúrgangi.

Þetta kemur fram í grein sem skrifuð er af vísindakonunni Sissel Albrektsen, sérfræðingi innan vébanda Nofima, Rannsóknarstofnun norska matvælaiðnaðarins.

Eins og gefur að skilja er þetta viðfangsefni ofarlega í huga vísindamanna í Noregi, þar sem 1,2 milljónir tonna af laxi er alinn og áætlanir þarlendra stjórnvalda um vöxt greinarinnar eru ævintýralegar.

Fosfór fer forgörðum í miklu magni, aðallega vegna þess að það er bundið í beinum fiska að stórum hluta. Þau á laxinn hins vegar erfitt með að melta og nýta efni sem þar eru að finna, og þess vegna skilar laxinn því ómeltu af sér út í umhverfið.

Nofima hefur um langt árabil leitað líftæknilegra aðferða til að vinna næringarefni úr fiskbeinum, til notkunar fyrir lax í eldi. Árangurinn er góður; nefnd Sissel Albrektsen og samstarfsmenn hennar hjá Nofima hefur tekist að vinna stóran hluta þess forfórs sem finna má í síldarúrgangi með sérstakri aðferð. Fosfór sem þannig er fengið gengur vel í ungviði í laxeldi. Verkefnið nú er að finna leiðir til að stíga skrefið frá tilraunastofunni og til framleiðslu í stórum stíl. Ekkert liggur fyrir ennþá hvort það sé mögulegt.

Í skrifum sínum fjallar Albrektsen um sérstakt verkefni um að gera aðferðafræðina það aðgengilega að hana megi nota í stórum stíl við framleiðslu fosfórs; verkefnið kallast Forny-verkefnið og Nofima er þar samstarfsaðili. Ef allt gengur að óskum er ekki talið að tæknin útheimti óheyrileg fjárútlát, sérstaklega ef hægt er að staðsetja framleiðsluna þar sem hráefnið fellur til, eða þar sem það er nýtt helst eins og hjá fiskeldisfyrirtækjunum.

Stórt og smátt um fosfór:

-          Evrópusambandið hefur skilgreint skort á aðgengilegum uppsprettum fosfórs sem eina helstu áskorunina sem Evrópa mun eiga við að glíma á 21. öldinni.

-          Framleiðsla fosfórs er mest í Kína, Bandaríkjunum og í Marokkó (70% heimsforðans), en í þessum þremur löndum eru stærstu námurnar að finna.

-          Ofgnótt er af fosfati í jarðvegi og á hafsbotni en aðeins lítið finnst í vinnanlegu magni. Á sama tíma felst vandamálið í sóun á því sem er framleitt.

-          Eftirspurnin er mikil – sérstaklega til framleiðslu á áburði en sú framleiðsla tekur um 90% af því sem framleitt er til iðnaðarnota.

-          Svo mikið er af fosfati í fiskúrgangi að sjávarútvegur/fiskeldi gæti verði að stærstum hluta sjálfbært með efnið takist að finna aðferðir til að vinna það úr úrgangi á iðnaðarskala.