miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Best geymda leyndarmálið í Grindavík

Guðsteinn Bjarnason
21. desember 2018 kl. 12:00

Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars í Grindavík. MYND/Bergþór Gunnlaugsson.

Alda Agnes Gylfadóttir framkvæmdastjóri segir óvissuna sem hangir yfir greininni erfiða. Krókaaflabátar ættu annað hvort að fá afslátt eða hafa frelsi til að velja sér veiðarfæri.

Einhamar er fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 2003 af hjónunum Stefáni Kristjánssyni og Söndru Antonsdóttur. Alda Agnes Gylfadóttir hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2012, fyrst sem viðskiptastjóri í tvo ár eða svo en síðan sem framkvæmdastjóri.

Fyrirtækið er nú með um 70 starfsmenn þegar allt er talið, sjómenn, starfsfólk í vinnslu, útgerð og annað, og skipar sér þar með í hóp stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins.

„Þetta er best geymda leyndarmálið í Grindavík,“ segir hún. Það er alltaf einblínt á Vísi og Þorbjörn þegar talað er um Grindavík.“

Einhamar einbeitir sér alfarið að þorsk og ýsu, línufiski sem allur er fluttur ferskur út með flugi. Meginreglan er sú að fiskur sem landað er á Stöðvarfirði er tekinn til vinnslu í Grindavík strax daginn eftir. Síðan fer hann út með flugi samdægurs og kominn til neytenda oft sólarhring síðar.

Vinna með ferskasta fiskinn
„Við erum að vinna ferskasta fiskinn, fisk sem er veiddur í gær og þar liggur auðvitað langstærsti munurinn hvað varðar hillulíf. Meðvitund neytandans um sjálfbærni og rekjanleika hefur á þessum árum sem ég hef verið hérna að þetta að festa sig meira. Menn vilja þetta og átta sig á því í flestum tilvikum að þetta kostar aðeins meira.“

Fyrirtækið er með þrjá báta á sínum snærum, Auði Vésteins SU, Gísla Súrsson GK og Véstein GK. Allt eru þetta nýir eða nýlegir 30 tonna plastbátar frá Trefjum.

„Vésteinn er nýjastur, hann kom í fyrra,“ segir Alda.

Hún segir það hafa marga kosti að vera með stóru bátana.

„Þeir komast auðvitað lengra út og þeir komast frekar á sjó í brælu. Við fundum mikinn mun fyrsta veturinn eftir að við fórum úr 15 tonna bátunum í þessa stóru. Stærsti kosturinn er svo auðvitað kælingin um borð og öll meðferð á aflanum.“

Alda hefur gagnrýnt aflameðferð strandveiðibáta, meðal annars í erindi sem hún flutti á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember og í viðtali í Morgunblaðinu í síðustu viku.

Vil ekki ráðast á neinn
„Ég vil ekki vera að ráðast á neinn, en við erum þarna á skrýtnum stað. Það eru gerðar alls konar fagkröfur til okkar í greininni en svo ferðu á strandveiðar og þá þarftu ekkert að vita um meðferð á afla eða mikilvægi Ef menn myndu vanda sig betur, koma með betri afla að landi, þá fá þeir hærra verð og ég get ekki séð annað en að það sé bara akkur fyrir alla. Mér finnst vanta að menn vinni saman að þessu til að auka virðið fyrir alla.“

Hún segir óvissuna sem hangir yfir greininni óneitanlega erfiða.

„Umhverfið í þessum bransa er náttúrlega þannig að þú veist ekkert hvað gerist. Svo koma alls konar þættir inn í þetta eins og Brexit, og svo hrundi Nígeríumarkaður 2016 og svo eru það veiðigjöldin sem eru lögð eins á alla.“

Veiðigjöldin segir hún koma illa við fyrirtæki eins og Einhamar, sem stunda veiðar alfarið í krókaaflamarkskerfinu.

„Í litla kerfinu höfum við bara tvö veiðarfæri sem við megum brúka, sem er handfæri og lína. Þetta er dýrasti útgerðarmátinn en í stóra kerfinu máttu veiða í það veiðarfæri sem þér hentar. En gjöldin eru lögð á okkur eins, þótt við séum með þessar takmarkanir á veiðarfærum. Þetta ætti auðvitað að vera þannig að annað hvort værum við með lægri veiðigjöld eða njóta sama frelsis og stóra kerfið í vali á veiðarfærum.“