miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bleikjuseiði á mismunandi hitastigi

Guðjón Guðmundsson
27. desember 2018 kl. 06:00

Tilraunastöð Hafró á Stað skoðar seltuþol bleikjusmáseiða

Tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar á Stað er að hefja tilraunaverkefni á bleikju í samstarfi við Samherja í byrjun næsta árs. Verkefnið gengur út á það að kanna langtímaáhrif af mismunandi fóðri á vöxt eldisbleikju. Eins verður seltuþol bleikjusmáseiða skoðað.

Hugsanlegt er talið að hægt sé að ala smábleikju við hærra seltustig en nú er gert. Það sem gerir rannsóknina mikilvæga er takmarkað aðgengi eldisfyrirtækja að ferskvatni á Reykjanesi.  Þar fer meðal annars fram umfangsmikið bleikjueldi Samherja og Matorku.

Leiði rannsóknin í ljós að hægt sé að ala bleikjuseiði frá u.þ.b. 10 til 100 grömm við hærra seltustig en nú er gert ykjust tækifæri til seiðaeldis á Reykjanesi umtalsvert. Rannsóknin verður gerð í nánu samstarfi við Samherja. Í rannsókninni verða seiðin alin upp í sláturstærð og fylgst náið með vextinum, frávikum, vansköpun og fleiru.

„Við höfum áður stundað bleikjurannsóknir í samstarfi við Samherja og við Háskólann á Hólum. Í þeim rannsóknum höfum við til dæmis skoðað áhrif hitastigs á fyrstu stigum seiðaeldis. Við höfum alið bleikju frá lokum kviðpokastigs upp í um það bil 40 grömm við þrjú mismunandi hitastig, 7, 10 og 12 gráður. Það kom í ljós, sem við reyndar vissum fyrir, að fiskurinn vex hraðast við 12 gráður á seiðastiginu og fær töluvert vaxtarforskot. En þegar þessir þrír hópar eru settir saman í sama hitastig við 40 grömm fer hægt og rólega að draga saman með þeim. Þegar sláturstærð er náð er fiskurinn, sem á seiðastigi var í 7 gráðu heitu vatni, orðinn stærstur. Engin kynþroskatíðni var í þeim fiski en töluverð kynþroskatíðni var í 12 gráðu fisknum og meðaltíðni í 10 gráðu fisknum. Þetta segir okkur að það getur komið í bakið á mönnum keyri þeir vöxtinn áfram í seiðaeldinu með hlýrra vatni,“ segir Tómas Árnason, sjávarútvegsfræðingur hjá Tilraunastöðinni.