föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Börkur NK hefur fiskað fyrir 1.330 milljónir

14. desember 2009 kl. 12:48

Börkur NK, uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, hefur fiskað fyrir 1.330 milljónir króna á árinu og bætt fyrra met sitt um 60 milljónir krona, þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi dottið upp fyrir í ár. Þetta er mjög góður árangur ekki síst þegar þess er gætt að Börkur er ekki vinnsluskip.

Sé afli Barkar  reiknaður til útflutningsverðmætis skilaði hann yfir þremur milljörðum króna. Skipið hefur veitt 52 þúsund tonn á árinu og vegur veiði úr norsk-íslenska stofninum þyngst. 

Börkur kom inn til löndunar í gærmorgun með 1.300 tonn af síld.  Síldarvertíðin hefur gengið vel hjá þeim Barkarmönnum. Aflinn er kominn yfir 9 þúsund tonn á vertíðinni og hefur hann nánast allur farið í manneldisvinnslu. Veiðar hafa gengið vel þótt vissulega sé langt að sækja aflann eða 36 tíma stím. Til gamans er þess getið á heimasíðu Síldarvinnslunnar að skipið hafi farið í 9 veiðiferðir á vertíðinni og hafi tíminn skipt skipst þannig að u.þ.b. 650 tímar hafa farið í stím, 330 tímar í löndun og aðeins hefur verið stoppað í 75 tíma á miðunum.  Auk þess hefur skipið lagt af mörkunum 8 sólarhringa í síldarrannsóknir.

Nú tekur við vélarupptekt og viðhald til að búa skipið undir verkefni næsta árs en það ríkir mikil óvissa með loðnuvertíðina sem ætti að byrja uppúr áramótum.