föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breiðafjörður: Tilraunaveiðum á makríl að ljúka

16. júlí 2009 kl. 15:00

Tilraunaveiðum Silfurness SF á makríl í Breiðafirði er að ljúka. Grétar Vilbergsson skipstjóri segir í samtali við Fiskifréttir, sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag að veiðin hafi verið róleg.

,,Það var þó þess virði að prófa. Menn fengu staðfestingu á því að hægt sé að veiða makríl hér á handfæri. Makríllinn hefur verið hér frá því í maí og virðist nú vera á förum. Ég kom aðeins of seint,“ sagði Grétar.

Silfurnesið fékk um 500 kíló af makríl í fyrstu veiðiferðinni sem farin var á föstudag í síðustu viku. Um 300 kíló veiddust í þeirri næstu. Í þriðju veiðiferðinni var ekkert að sjá og sagðist Grétar vera að hugleiða að fara til baka til Hornafjarðar enda hefði frést að bátar þar væru að fá ágætan makríl á handfæri.

Makríllinn var boðinn upp á fiskmarkaðnum og fékk Grétar 150 krónur á kílóið fyrir aflann í fyrri ferðinni og 124 krónur í þeirri seinni. ,,Ég held að það sé grundvöllur fyrir því að hafa eitthvað upp úr þessu,“ sagði Grétar.