miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breskir Íslandssjómenn fá meiri bætur

12. ágúst 2009 kl. 12:33

Breska ríkisstjórnin hefur hrint af stað nýrri áætlun sem felur í sér viðbótarbætur til handa breskum togarasjómönnum sem misstu vinnuna og lífsviðurværi sitt þegar breskir togarar hrökkluðust af Íslandsmiðum í kjölfar þorskastríðanna upp úr 1970.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa áður úthlutað bótum af þessu tagi, en nú er öllum sjómönnum sem fiskuðu við Ísland á þorskastríðsárunum gefinn kostur á að sækja um viðbótarbætur.

Gert er ráð fyrir að bæturnar muni nema samtals 5-10 milljónum sterlingspunda, jafnvirði eins til eins og hálfs milljarðs íslenskra króna. Áætlað er að um eitt þúsund sjómenn muni njóta góðs af nýju bótunum en við ákvörðun þeirra er tekið mið af þeim tíma sem þeir stunduðu sjóinn við Ísland síðustu 20 ár starfsferils síns.

Þetta kemur fram á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com. Þar segir ennfremur að umboðsmaður breska þingsins hafi metið það svo að bótagreiðslur, sem inntar voru af hendi á árunum 2000-2002, hafi verið ósanngjarnar. Þess vegna hafa stjórnvöld ákveðið að bæta um betur.