fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breskir sjómenn ósáttir við tilraunaveiðar Hollendinga

15. janúar 2018 kl. 08:00

Þorskurinn sagður þola rafstuðið illa. MYND/HAG

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að láta rannsaka umhverfisáhrif umdeildrar veiðiaðferðar þar sem rafstuð er notað til að ná fiskinum upp í veiðarfærin.

Breskir sjómenn hafa gagnrýnt þessa veiðiaðferð og sagt hana hafa neikvæð áhrif á aðrar fisktegundir en þær, sem hún er notaðar á. Þar á meðal stafi þorski hætta af þessari veiðiaðferð. The Daily Express skýrir frá þessu á vefsíðu sinni.

Veiðar þessar fara þannig fram að búnaður er settur í tognet sem dregin eru eftir hafsbotninum. Búnaðurinn gefur frá sér rafstuð sem lamar fiskinn og þröngvar honum inn í veiðarfærin.

Tognetin eru mun léttari en venjulegar botnvörpur, þannig að skemmdir á hafsbotninum verða í lágmarki. Að því leyti til þykir þetta umhverfisvæn veiðiaðferð, auk þess sem meðafla er haldið í lágmarki.

Samtökin LIFE, sem eru samtök evrópskra smábátasjómanna, segja breska sjómenn hins vegar hafa tekið eftir því að þorskur, barri og sólflúra hafa veiðst illa eftir að rafveiðarnar hófust.

Í reglum Evrópusambandsins eru veiðar með rafhöggi bannaðar, en undantekningar hafa verið veittar, einkum til Hollendinga sem hafa stundað slíkar veiðar í tilraunaskyni, meðal annars út af ströndum Bretlands í nokkuð stórum stíl. Þar hafa um hundrað togarar einkum verið að veiða smáa flatfiska á borð við sólflúru.

Evrópuþingið hyggst um miðjan janúar taka afstöðu til tillögu um að banninu verði aflétt.

Þess má geta að í aðsendum tillögum til Byggðastofnunar fyrir byggðaáætlun 2017 til 2020 er að finna eina tillögu um kafbáta sem nota mætti bæði til fiskveiða og fiskeldis. Kafbátar af þessu tagi sendi frá sér rafstuð sem roti fiska og geti sú aðferð komið í staðinn fyrir botntroll.

gudsteinn@fiskifrettir.is