laugardagur, 21. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breyta verklagi vegna óhapps

16. júlí 2017 kl. 12:37

mynd/gunndís

Plast á fjörum í Tálknafirði eftir óhapp í nýrri seiðaeldisstöð Arctic Fish

Fyrirtækið Arctic Fish hefur breytt verklagi sínu í nýrri seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Tálknafirði eftir að plast úr lífhreinsitönkum fauk frá stöðinni og barst í töluverðu magni á fjörur í botni fjarðarins. Hreinsun er hafin, en ganga þarf fjörur í nokkur skipti til að hreinsa upp plastið.

„Já það er rétt að plastið er svokallað biomedia, eða plast sem notað er í lífhreinsa [biofilter] en þeir fengu að kynnast íslenskum veðuraðstæðum þegar það var verið að fylla á í lífhreinsitanka við suðurhlið á nýju eldishúsi sem staðsett er nálægt fjörunni í botni Tálknafjarðar. Það komu miklir vindstrengir sem urðu þess valdandi að nokkuð af plasti fór úr þessum lífhreinsitönkum, og því miður fauk líka út í fjöru,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish.

Sigurður bætir við að verklagi hefur verið breytt svo þetta endurtaki sig ekki. Það er gert með því að bráðabirgðar plastþak er sett yfir lífhreinsitanka þegar verið er að setja í þá plastefnið til að byggja upp bakteríuflóru til hreinsunar á vatninu í endurnýtingarkerfinu. Þegar því er lokið er tanknum síðan lokað með stáli líkt og tankurinn er byggður úr.

Fýkur um allt
Það var Gunndís Ýr Finnbogadóttir, aðjúnkt við Listaháskóla Íslands, sem vakti athygli á málinu með myndbirtingu á Facebook – færslu sem hefur vakið töluverða athygli. Gunndís segir í færslu sinni að plasthlutirnir séu af tveimur stærðum „en allt er þetta nægilega lítið til þess að fiskar, fuglar og aðrar skepnur geta auðveldlega gleypt og berst örugglega fljótt inn í fæðukeðjuna. Svo flýtur þetta og fýkur um allt. Það er búið að láta Umhverfisstofnun vita af þessu en ekkert gerist og enginn virðist ætla að hreinsa þetta upp,“ skrifaði Gunndís þann 8. júlí. Í viðtali við Fiskifréttir segir Gunndís að plastið hafi þakið fjöruna á allstóru svæði, og erfitt að sjá hvernig það verði hreinsað upp með fullnægjandi hætti.

„Unnið hefur verið að hreinsun sem ekki er lokið og því miður verður að fara nokkrar viðbótarferðir við fjöruna í Tálknafirði á næstu dögum,“ segir Sigurður aðspurður um hreinsunarstarfið.

Fullkomin stöð
Seiðaeldisstöð Arctic Fish er afar fullkomin. Fjárfesting fyrirtækisins er mikil, eða um þrír milljarðar króna. Í stöðinni er vatn til vinnslunnar hreinsað og endurnýtt að langstærstum hluta.

svavar@fiskifrettir.is