miðvikudagur, 20. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breyttum viðhorfum sjávarútvegsráðherra ESB fagnað í Bretlandi

27. maí 2009 kl. 15:16

Samtök útvegsmanna í Bretlandi fagna niðurstöðu fundar sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsríkjanna um að gera þurfi gagngerar breytingar á sjávarútvegsstefnu sambandsins, en ný og endurskoðuð stefna á að taka gildi árið 2012.

Sjávarútvegsráðherrarnir ályktuðu að draga þyrfti úr miðstýringu við framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar og færa valdið meira til einstakra aðildarríkja. Jafnframt þyrfti að breyta reglunum um brottkast.

Samtök útvegsmanna í Englandi (National Federation of Fishermen’s Organisations) lýstu niðurstöðu fundarins sem tímamótum og Bertie Armstrong framkvæmdastjóri skosku útvegsmannasamtakanna (Scottish Fishermen’s Federation) sagði fréttirnar mjög góðar. ,,Samkomulag um að breytinga sé þörf er einnig mjög mikilvægt,” sagði Armstrong og taldi að einlægur vilji væri til endurbóta á fiskveiðistefnunni.

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum IntraFish.com. Þar segir ennfremur að ESB muni nú einbeita sér að því að draga úr stærð togveiðiflotans og fækka sóknardögum skipa.

,,Það er kaldhæðnislegt að búist er við því að ESB leiti ráða á Íslandi, sem hefur eitt besta fiskverndarkerfi sem til er í heiminum,” segir í fréttinni á IntraFish og vísar til þess að Joe Borg sjávarútvegsstjóri sambandsins hafi beðið Íslendinga um aðstoð við gerð nýrrar sjávarútvegsstefnu.