sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Brugðist við hertum innflutningskröfum Bandaríkjanna

Guðsteinn Bjarnason
7. desember 2017 kl. 13:49

Selir eiga það á hættu að flækjast í net og drukkna. MYND/EPA

Hertar innflutningsreglur Bandaríkjanna á sjávarafurðum, til verndar sjávarspendýrum, kalla á viðbrögð víða um heim. Norska hafrannsóknarstofnunin hefur í því samhengi gert úttekt á meðafla sjávarspendýra.

Fiskifréttir skýrðu nýverið frá því að bandarísk stjórnvöld hafi gert hertar kröfur til innflutnings á sjávarafurðum, í þeim tilgangi að vernda seli, hvali og önnur sjávarspendýr.

Bandarísk lög kveða á um bann við innflutningi á fiski sem veiddur hefur verið með þeim hætti að sjávarspendýrum stafi hætta af, drukkni í veiðarfærum eða skaðist.

Til þessa hafa bandarísk stjórnvöld ekki framfylgt þessu innflutningsákvæði laganna, en í kjölfar dómsmáls sáu þau sér ekki fært annað en að gera þær kröfur til annarra landa að þau tryggi það að sjávarspendýrum stafi engin hætta af þeim veiðarfærum sem notuð eru. Að öðrum kosti fái þau ekki að flytja fisk til Bandaríkjanna.

Víða um heim, þar á meðal hér á landi, eru stjórnvöld þessa dagana að reyna að átta sig á því hvað þetta þýðir. Bandaríkin hafa gefið öðrum löndum svigrúm fram í ársbyrjun 2022 til að gera ráðstafanir. Eftir það taki innflutningsbannið gildi á þær sjávarafurðir sem ekki uppfylla kröfurnar.

Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, segir nokkuð ljóst að þessar nýtilkomnu kröfur Bandaríkjanna muni að minnsta kosti hafa áhrif á netaveiðar smábáta hér á landi. Íslendingar muni enn fremur þurfa að ráðast í nákvæma skráningu á meðafla og stofnstærðum, en slíkri skráningu hefur hingað til verið verulega ábótavant hér á landi.

Eftirlit og skráning
Í Noregi er þegar hafinn vinna við að uppfylla þau skilyrði sem Bandaríkin setja. Norska hafrannsóknarstofnunin sendi í síðustu viku frá sér skýrslu um meðafla sjávarspendýra.

Þar kemur fram að þrjár tegundir sjávarspendýra séu í mestri hættu við Noregsstrendur, en það eru hnísur, landselir og útselir. „Flest þeirra koma í stórriðin net nálægt ströndinni,“ segir í skýrslunni, og örlög þeirra eru oftast þau að drukkna áður en netin eru tekin upp. Tekið er fram að þetta gerist ekki oft, hnísur komi sjaldan í net og selirnir enn sjaldnar.

Þá segir að undanfarin fimm til sex ár hafi það gerst fimm til tíu sinnum á ári að hnúfubakar og háhyrningar hafi fest sig í veiðarfærum við vetrarsíldveiðar í fjörðunum í Tromsfylki. Þegar það gerist er reynt að losa dýrin og sleppa þeim lifandi, helst ósködduðum.

Í skýrslunni er ennfremur rætt um aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr þessu, og þá bæði aðgerðir sem nú þegar eru í framkvæmd og aðrar sem hægt væri að grípa til. Nefnt er að hafrannsóknarstofnunin fylgist grannt með stofnstærð sela, en segir að meiri sveigjanleika sé þörf í fjárveitingum til slíks eftirlits.

Þá segir að efla þurfi eftirlit með meðafla sjávarspendýra, og þar sé öruggast að óháðir eftirlitsmenn sjá um slíkt eftirlit um borð í skipunum. Mikilvægt sé að hafa greinargóðar upplýsingar til taks um meðaflann, en skráning hafi ekki verið sem skyldi í Noregi.

Að bandarískri fyrirmynd
Lagt er til að Norðmenn komi sér upp að bandarískri fyrirmynd bæði vinnuhópi og aðgerðaráætlun um að draga úr líkunum á því að sjávarspendýr verði fyrir tjóni af völdum veiðarfæra. Meðal annars megi grípa til þess að nota hljóðgjafa til að fæla sjávarspendýr frá veiðarfærum, og þá megi setja reglur um að slíkt sé gert á tilteknum veiðisvæðum eða á tilteknum árstímum. Einnig megi gera kröfur um breytingar á veiðarfærum.

Stofnunin hefur nú þegar látið gera tilraunir með hljóðgjafa á veiðarfærum við þorskveiðar og skötuselsveiðar í net, og verða niðurstöður þeirra tilrauna kynntar nú i desembermánuði. Þær tilraunir snúast um það hve mikið álag hljóðgjafarnir þola og hvort þeir fæli hugsanlega einnig frá þær fisktegundir sem ætlunin er að veiða.

Tilraunir sem gerðar hafa verið með fælandi hljóðgjafa í Danmörku, Hollandi og Bandaríkjunum sýna að dregið hefur úr hnísumeðafla um 80 til 100 prósent. Óljósara er hvort fælandi hljóðgjafar virki jafn vel á seli.

Þá hafi í Danmörku verið gerðar tilraunir með að nota net sem járnoxíð hefur verið sett í, þannig að dýr sem nota bergmálsmiðun til að greina umhverfið eigi auðveldara með að „heyra í“ veiðarfærunum.

Í Kanada hafi ennfremur verið gerðar tilraunir með að blanda frumefninu barín í nælonið sem notað er í net, og það hafi gefið þá raun að bæði hnísur og sjófuglar hafi síður flækst í netin. Hvað sjófuglinn varðar er talið að netin hafi með þessu orðið sýnilegri, þannig að fuglinn hafi átt auðveldara með að forðast þau.

Áhyggjur af fiskeldi
Loks er fjallað um fiskeldi, bandarísku innflutningsreglurnar geta einnig náð til fiskeldis ef hætta er á að sjávarspendýr verði fyrir tjóni af völdum þess. Norðmenn hafa þar einkum áhyggjur af því að í norskum lögum er heimild til þess að skjóta sel sem er að sniglast í kringum eldiskvíar.

Fá dæmi eru reyndar til þess að selir hafi verið skotnir við eldiskvíar, en ekki er vitað hvort það stafi af því að fáir selir hafi í raun verið skotnir eða hvort svo sjaldan sé tilkynnt um það.

Hins vegar er bent á aðrar aðferðir til að koma í veg fyrir að selir skemmi eldiskvíar, og er vísað til þess að hljóðgjafar hafi reynst ágætlega sem selafælur.

Dómsmál ýtti við Bandaríkjastjórn
Þrenn bandarísk umhverfisverndarsamtök tóku sig saman árið 2014 og höfðuðu mál gegn Bandaríkjastjórn til að knýja á um að fjögurra áratuga gömlum lögum um vernd sjávarspendýra verði framfylgt í einu og öllu, einkanlega hvað varðar ákvæði um að banna eigi innflutning á sjávarafurðum sem fengnar eru með veiðiaðferðum sem stofna sjávarspendýrum í hættu.

Þessi samtök eru The Center for Biological Diversity, Turtle Island Restoration Network og The Natural Resources Defence Council.

Málið var tekið fyrir hjá bandarískum dómstól alþjóðaviðskipta í New York, og lauk því máli þann 5. janúar 2015 með dómsátt þegar bandarísk stjórnvöld féllust á að setja á grundvelli laganna ítarlegar reglur um slíkt innflutningsbann.

Þær reglur voru síðan settar í ágúst árið 2016 og eru að komast til framkvæmda á næstu árum. Reglurnar sjálfar tóku gildi 1. janúar síðastliðinn, en öllum þeim löndum sem selja fisk til Bandaríkjanna var jafnframt gefinn fimm ára frestur til að gera bandarískum stjórnvöldum grein fyrir því hvernig þau tryggja með lögum að sjávarspendýr verði ekki fyrir tjóni af völdum veiðanna.

Sá frestur rennur út í lok árs 2021, þannig að árið 2022 stefnir allt í að innflutningsbannið verði virkjað að fullu.

„Bandaríkjastjórn hefur loksins viðurkennt að allt sjávarfang sem neytt er í Bandaríkjunum verður að vera öruggt fyrir höfrunga,“ sagði Sarah Uhlemann, yfirmaður hjá Center for Biological Diversity, Í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér eftir að dómsmálinu lauk með sátt.

„Nýju reglurnar munu þvinga ríki til þess að fara eftir bandarískum verndarstöðlum ef þau vilja aðgang að þessum markaði, og bjarga þúsundum hvala og höfrunga frá því að deyja á önglum eða í veiðinetum um heim allan.“