mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Brýnt að uppræta drauganet í sjó

6. maí 2009 kl. 13:43

Drauganet eru alvarlegt umhverfisvandamál í höfunum og brýnt að grípa til öflugra aðgerða til að koma í veg fyrir tilvist þeirra. Þetta kemur fram í skýrslu sem lögð var fram í gær á ráðstefnu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Ósló í Noregi.

Þar kemur fram að áætlað er, að um 640.000 tonn af veiðarfærum bætist árlega við þau drauganet sem fyrir eru í höfunum. Það samsvarar um tíunda hluta alls þess úrgangs sem árlega endar í sjónum. Þessi net halda áfram að fanga fisk, fugl, skjaldbökur og hvali, árum saman eftir að þau týnast og valda þannig ómældu tjóni.   

Meðal aðgerða sem mælt er með að grípa til er að greiða fiskimönnum fyrir að koma í land með ónýt net, bæta sjókort svo forðast megi festur í botni og loks að hafa netin úr efni sem leysist upp eftir tiltekinn tíma í sjó. Ruv.is skýrði frá þessu.