sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dæmigert fyrir óábyrga afstöðu ESB

16. nóvember 2009 kl. 16:57

„Þetta er dæmigert fyrir óábyrga afstöðu  ESB í sjávarútvegsmálum," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ en Evrópusambandið sat hjá sl. föstudag við samþykkt samkomulags NEAFC - Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar - um bætt eftirlit með veiðum og löndun á  úthafskarfa sem veiddur er á Reykjaneshrygg.

Mikill misbrestur hefur verið á því að aflaskýrslur frá aðildarríkjum ESB skili sér til NEAFC.  Þá hefur íslenskum eftirlitsmönnum ekki verið heimilað að fylgjast með löndunum á karfa úr skipun ESB þótt ítrekað hafi verið eftir því leitað síðastliðið sumar.

„Við höfum lengi bent á að það er algjörlega óásættanlegt að ESB skuli ekki fylgjast með löndun á úthafskarfa úr þeim skipum sem stunda veiðar á Reykjaneshrygg.  Það er ótækt að það skuli hvorki verið talið eða vigtað upp úr þeim skipum sem landa úthafskarfa á Spáni og í Portúgal. Það hefur enginn vilji eða geta verið hjá ESB til að taka á málinu og þessi afstaða sýnir að það hefur ekkert breyst. Það þarf ekki einu sinni hátíðis- og tyllidaga til að fyrirsvarsmenn ESB tali fjálglega um ábyrgar fiskveiðar. Þetta er enn eitt dæmið um hversu innihaldslaust snakk þetta er," segir Friðrik á vef LÍÚ.