föstudagur, 22. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dótturfélag Samherja fagnar nýjum skipum í Þýskalandi

17. janúar 2018 kl. 10:42

Nýju skipin tvö í Cuxhaven. MYND/SAMHERJI

Tveimur nýjum frystiskipum voru gefin nöfn síðastliðinn föstudag í Cuxhaven í Þýskalandi. Skipin eru í eigu Deutsche Fischfang Union, dótturfélags Samherja, og heita Cuxhaven NC 100 og Berlin NC 105

„Það var stór dagur í útgerðarsögu Samherja og Deutsche Fischfang Union (DFFU) þegar tveimur nýjum og glæsilegum skipum DFFU var gefið formlega nafn síðastliðinn föstudag við hátíðlega athöfn í Cuxhaven, Þýskalandi,“ segir í tilkynningu frá Samherja

„Dagurinn var ekki síður merkilegur vegna þess að síðasta nýsmíði DFFU kom til Cuxhaven árið 1990. Harpa Ágústsdóttir, eiginkona Haraldar Grétarssonar, framkvæmdastjóra DFFU, gaf Cuxhaven NC 100 nafnið með formlegum og hefðbundnum hætti. Það kom svo í hlut eiginkonu ráðuneytisstjóra landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, Annegret Aeikens, að gefa Berlin NC 105 nafn.“

Alls mættu um 400 gestir frá 17 löndum í móttöku fyrir viðskiptavini, embættismenn, birgja, starfsmenn og velunnara félagsins, sem efnt var til af þessu tilefni.

Jafnframt afhenti DFFU sjóminjasafni Cuxhaven níu skipslíkön. Líkönin eru af skipum tengdum félaginu og sýna glöggt þróunina sem orðið hefur í útgerð Þýskalands á síðustu öld en elsta líkanið er frá árinu 1921. 

Norðlenska fréttastöðin N4 fjallaði í gærkvöld um komu nýju skipanna tveggja til Cuxhaven og má sjá þar sjá viðtöl við  meðal annars Harald Grétarsson framkvæmdastjóra DFFU og Hannes Kristjánsson skipstjóra Cuxhaven.