mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dræm karfaveiði í Síldarsmugunni eftir þokkalega byrjun

11. september 2008 kl. 16:48

Veiðar á karfa í Síldarsmugunni milli Íslands og Noregs máttu hefjast 1. september síðastliðinn og eru tæplega 30 skip frá ýmsum þjóðum á veiðisvæðinu.

Samkvæmt heimildum Fiskifrétta fékkst þokkalegur afli fyrstu 5-6 dagana en síðan datt botninn úr veiðunum um síðustu helgi og hafði ekki glæðst aftur þegar við könnuðum málið í gær.

Veiðarnar fara fram á alþjóðlegu hafsvæði nyrst í Síldarsmugunni, rétt suður af 200 mílna Svalbarðalögsögunni. NA-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) stýrir veiðunum og takmarkar þær við 14.500 tonn.

Þetta eru samkeppnisveiðar þannig að þegar heildarkvótanum er náð verða veiðarnar stöðvaðar. Miðað við aflabrögðin hefur sennilega verið búið að veiða um helming kvótans nú í upphafi vikunnar.

 Íslenskar útgerðir tóku þátt í veiðunum í fyrra en sýndu þeim ekki áhuga í ár, eins og fram hefur komið í Fiskifréttum.

Af tæplega 30 skipum sem nú eru á veiðum eru flest rússnesk, en auk þeirra eru þrjú frá Noregi, þrjú frá Portúgal, þrjú frá Færeyjum, tvö frá Spáni, eitt frá Þýskalandi, eitt frá Lettlandi og eitt frá Litháen.

Í fyrra voru 50 skip á þessum veiðum og stafar minni áhugi í ár væntanlega af háu olíuverði og lágu karfaverði.