miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Duglegt fólk finnur alltaf tækifæri

Guðsteinn Bjarnason
22. desember 2018 kl. 12:00

Bræðurnir Gunnar og Teitur Örlygssynir ásamt Köru Sturludóttur í höfuðstöðvum IceMar í Keflavík. MYND/GB

IceMar er fimmtán ára gamalt útflutningsfyrirtæki í Keflavík sem byrjaði smátt en hefur styrkst og vaxið jafnt og þétt. Velta félagsins eru nokkrir milljarðar króna á ári og ágætis afgangur.

„Menn þurfa að fara varlega í þessar stóru sameiningar, það þarf ekki alltaf að sigra heiminn,“ segir Gunnar Örlygsson, en hann er eigandi IceMar í Keflavík, útflutningsfyrirtækis sem hann stofnaði fyrir fimmtán árum ásamt bróður sínum, Sturlu.

„Menn nota orðið hagræðing þegar verið er að sameina stórar blokkir, en hagræðing er ekki alltaf hagræðing,“ segir hann. „Þegar fleiri kraftar og fleiri augu koma að málum, fleiri metnaðarfullir einstaklingar, þá er oft hægt að gera betri hluti með því að hafa blöndu af stórum fyrirtækjum sem vinna svo í sátt með meðalstórum og litlum fyrirtækjum. Þetta er ekki bara í aðra áttina.“

Hann segist þó ekki vera að halda því fram að hér eigi bara að vera smá og meðalstór fyrirtæki.

„Alls ekki. Við þurfum þessi stóru sterku fyrirtæki. Mörg þeirra hafa náð alveg stórkostlegum árangri, og jafnvel með frábæra stjórnendur. En stærðarhagkvæmnin er ekki einhlít.“

Frjósamt fjölskyldufyrirtæki
IceMar er ekki með mikil umsvif. Starfsmenn eru aðeins þrír, bræðurnir Gunnar og Teitur Örlygssynir ásamt Köru Sturludóttur, en hún er dóttir þriðja bróðurins.

Þeir Gunnar og Sturla stofnuðu fyrirtækið árið 2003 en Teitur hefur verið starfsmaður í fyrirtækinu frá upphafi. Fyrir ári keypti síðan Gunnar Sturlu út úr fyrirtækinu, en hann sinnir þó enn stöku verkefnum fyrir fyrirtækið.

Þeir bræður þrír voru allir körfuboltakappar fræknir hér fyrr á árum, eins og margir muna vel.

„Jú, og Kara náttúrlega var með betri körfuboltakonum landsins þegar hún var í þessu,“ segir Gunnar, „þannig að það sem sameinar okkur er körfubolti og veiði og vinna. Þetta er frjósamt fjölskyldufyrirtæki. Svo eru hinir í fjölskyldunni náttúrlega tengdir þessu öllu, og þetta er stór fjölskylda. Við erum sjö alsystkini og ólumst upp í Njarðvík. Vhöfum búið hér meira og minna öll. Sturla býr reyndar á Álftanesi, en við höfum stundum farið aðeins út fyrir og komið svo aftur.“

Þau eru með skrifstofuhúsnæði við Hafnargötuna í Keflavík, sem verður að teljast harla lítil yfirbygging en þaðan selja þau fisk til kaupenda víða í Norður-Ameríku og Evrópu. Fiskinn kaupa þau frá framleiðendum víða um land.

„Við byrjuðum algerlega frá grunni, settum ef ég man rétt eina milljón króna í félagið þegar við stofnuðum það. En síðan hefur okkur tekist ár frá ári að gera félagið sterkara,“ segir Gunnar.

„Við höfum alltaf verið mjög iðin við þetta, dugleg að sækja vöruna og koma henni á erlenda markaði. Og það kostar tíma og vinnu, stundum blóð, svita og tár að koma sér fyrir í greininni og sanna sig. Hægt og rólega höfum við byggt upp traust hjá framleiðendum. Sömuleiðis hefur fylgt þessu lukka að því leytinu til að bæði er varðar val á framleiðendum og val á kaupendum þá hefur það verið afskaplega gott fólk sem við höfum unnið með. Þegar menn eru svo farnir að treysta okkur í viðskiptum þá opnast stundum nýjar dyr.“

Stóðust freistingar fyrir hrun
„Á upphafsárum létum alltaf allan arðinn renna inn í félagið. Fyrir hrun bárust okkur gylliboð um að kaupa hin og þessi hlutabréf og við hittum bankafólk og ég vil nú þakka Sturlu eldri bróður mínum, sem var þá framkvæmdastjóri félagsins, fyrir það hann vildi bara alltaf halda sig við fiskinn. Það var nú náttúrlega bara hárrétt hjá honum. Við fórum ekkert út í neinar æfingar út fyrir það sem við þekkjum og kunnum. Þannig að eftir hrunið þá stóðum við nokkuð sterkt. Mörg félög voru þá illa farin. Bæði í sjávarútvegi og öðrum greinum. Það koma þarna ansi sterk ár, milli 2009 og kannski 2013, þar sem gengið er á þvílíkri hreyfingu okkur í hag. Og við nýttum okkur þann styrk til þess að komast í þá stöðu sem við erum í í dag.“

Hann segir IceMar vera algerlega skuldlaust félag þrátt fyrir aukin umsvif síðustu misserin.

„Við höfum ekki farið geyst, höfum bara vaxið svona jafnt og þétt. Reynt að lesa rétt í spilin hverju sinni. Það þarf ekki alltaf mikinn vöxt, heldur þarf að halda vel utan um reksturinn. Gera skil á sínum skuldum og vera skilvís og ábyrgur, þá kemur þetta hægt og rólega.“

EES opnaði á útflutning
Gunnar segir mikið hafa breyst í greininni frá því hann var að feta sín fyrstu spor í sjávarútvegi.

„Þegar ég byrjaði að selja fisk fyrir rúmlega 22 árum voru bara nokkur ár liðin frá því Ísland gekk í Evrópska efnahagssvæðið. Aðeins örfá ár liðin frá því við gerðum þann góða samning sem opnaði á útflutning frá Íslandi. Áður höfðu tvö til þrjú fyrirtæki séð um þetta. Þetta skiptist þá á milli stórra blokka í samfélaginu, en síðan spretta upp félög, bæði í ferskum og frystum afurðum. Flugleiðum til og frá landinu fer að fjölga og ferski fiskurinn byrjar.“

Gunnar minnist sérstaklega tveggja manna sem fóru inn í greinina eftir að EES-samningurinn tók gildi. Annar er Logi Þormóðsson heitinn, sem stofnaði Tros ehf. í Sandgerði, en hinn er Kristján Þór Gunnarsson.

„Kristján Þór tók mig inn í Fisco árið 1996, og var minn lærifaðir þegar ég var að byrja og mikill vinur minn. Útflutningsfyrirtækjunum fölgaði gríðarlega á þessum tíma. Mörg minni og meðalstór fyrirtæki ruddu nýja markaði og opnuðu á miklar gáttir fyrir íslenskt sjávarfang öllum til heilla. Þetta voru menn sem voru ekki endilega í útgerð heldur bara í vinnslu og sölu. Þeir komust inn á ferskfiskmarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum, síðan stækkuðu þessir markaðir og döfnuðu og varan sannaði sig. Þá opnuðust náttúrlega tækifæri fyrir stærri félög að fara inn á þetta. Ef þú horfir á flóruna í dag þá eru flest stærstu íslensku félögin sem eru í bolfiskvinnslu að vinna ferskan fisk í dag.“

Fór ungur á sjóinn
Gunnar byrjaði ungur í sjávarútvegi, fór á sjóinn fimmtán ára gamall og var sjómaður í tíu ár áður en hann tók að einbeita sér að sölumálum. Ekki segir hann þó áhugann mega rekja til þess að fjölskyldan hafi mikið stundað sjó. Svo var ekki.

„Sjórinn togaði bara alltaf í mig. Afi minn var reyndar skiptstjóri. Hann hét Agnar STurla Guðmundsson frá Suðureyri við Súgandafjörð og gerði seinna út frá Ísafirði. Hann var með þeim fyrstu sem fór á dragnót. En hann var fæddur á þarsíðustu öld þannig að það er dálítið langt síðan. Þetta var ekkert í gegnum hans útgerð eða neitt. En ég fór ungur á sjóinn og kláraði stýrimannaskólann. Síðan fer ég í þessi sölustörf frekar ungur og byrja að selja sjávarfang svona upp úr 25 ára aldri.“

Árið 2009 stofnaði Gunnar síðan framleiðslufyrirtæki í Sandgerði með æskuvini sínum, Arthur Galves. Það félag heitir AG Seafood ehf. og er að sögn Gunnars einn af þessum stóru í flatfiskframleiðslu á Íslandi.

„Þetta er núna fjörutíu manna vinnustaður og hefur gengið vel. Samhliða flatfiskvinnslunni erum við svo mikið að framleiða þorsk og ýsu. Það gerum við þegar hægist á flatfiskinum.“

Hann segir IceMar vinna með mörgum íslenskum framleiðendum og reglulega sé að bætast í hópinn.

„Í rauninni er það kannski einn af stórum styrkleikum félagsins að ólíkt sumum útflytjendum þá höfum við ekki verið með öll eggin í sömu körfunni. Við snertum mjög margar tegundir af fiski og erum bæði í fersku og frystu. Við erum til að mynda mjög stórir í flatfiski, fyrst í gegnum AG en svo urðu markaðir stærri og við höfum keypt til að mynda afurðir öðrum framleiðendum í flatfiski. Við höfum einnig selt mikið af ufsa, ýsu og þorskafurður, við seljum karfa og við seljum makríl, stundum loðnu. En okkar stærstu tegundir hjá IceMar eru samt þorskur og ýsa.“

Keyptu hluti í ELBA og Ísfisk
Fyrir rúmu ári keypti IceMar helminginn í spænska saltfiskfélaginu ELBA í Barcelona. ELBA selur íslenskan saltfisk til hundruða viðskiptavina á Spáni og fleiri Suður-Evrópulöndum og hafði í áratug verið einn af stærstu viðskiptavinum IceMar.

„Við vorum búnir að eiga frábæra sögu með því félagi. Það var þannig að þegar Kambur hætti starfsemi á Flateyri fyrir ellefu eða tólf árum þá leitaði þessi kaupandi til okkar.  Ég verð alltaf þakklátur Hinrik Kristjánssyni fyrir að koma mér í samband við hann. Framleiðslan frá Kambi hafði verið að fara að stórum hluta þarna inn, þannig að ég stakk mér inn þarna og setti mig í samband við Joan Armengol í Barcelona sem er framkvæmdastjóri ELBU. Þetta óx vel og duglega á þessum tíu árum allt þangað til að eigendur ELBU ákveða að selja. Okkur þótti náttúrlega slæmt að hugsa til þess að missa þau viðskipti á einni nóttu, og þá fór af stað þetta ferli að skoða hvort það væri mögulegt að koma inn í reksturinn. Það þróaðist síðan þannig að GPG Seafood á Húsavík ákvað að kaupa þetta með okkur.“

Síðastliðið vor keypti IceMar síðan minnihluta í Ísfiski hf., sem hafði þá keypt bolfiskvinnslu HB Granda á Akranesi.

„Ísfiskur er þekkt fyrir gæðaframleiðslu og hefur verið að framleiða fyrir Icelandic vörumerkið. Þar sem Ísfiskur náði mjög góðri sölu á landinu sínu í Kópavogi og er flytja í gömlu verksmiðju HB Granda á Akranesi þá er það deginum ljósara að framleiðslan getur aukist. Ég er mjög spenntur fyrir því samstarfi sem bíður okkar næstu árin. Félagið stendur núna mjög sterkum fótum, svo til skuldlaust í stóru nýju glæsilegu húsi á Akranesi. Húsið er gríðarlega vel búið og stjórnendur þarna eru hlaðnir reynslu. Það er líka gaman að segja frá því að nýlega gerði Icemar samning við Ísfisk um mikla framleiðslu inn á Bretlandsmarkað með þorsk og ýsu afurðir.“

Austan hafs og vestan
Helstu markaðir félagsins eru Bandaríkjamarkaður og Bretlandsmarkaður.

„Í rauninni má segja að tekjur félagsins frá Norður-Ameríkumarkaði séu hærri en tekjur félagsins frá Evrópumarkaði í dag. Það kannski gerðist fyrst í fyrra, árið 2017 og kannski má rekja ástæður þess til þeirrar staðreyndar að Icelandic selur sína starfsemi í Bandaríkjunum til Highliner. Við nýttum okkur þetta að hluta, bæði í sölu á ferskum afurðum og frystum. Við höfum náð að búa til samband við kaupendur þar sem að böndin eru sterk og fyrir vikið hafa viðskiptin aukist mikið. Við höfum líka haft hlutina dálítið mikið uppi á borðum, og fólk hefur kunnað að meta það. Það er ekki verið að pískra hver í sínu horni. Við erum í rauninni fiskkaupmenn og -konur og hluti af þessu starfi er að tengja markaðinn við framleiðendur. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir aðila eins og okkur að þekkja framleiðandann vel, að vita hvernig hann vinnur, hverjir eru hans styrkleikar og veikleikar. Þannig að þegar þú bankar á dyrnar hjá honum með ný verkefni, þá ertu nokkuð viss um að það passi inn í það sem hann er að vinna með.“

Staldrað við um stund
Hvað varðar næstu skref hjá IceMar segir hann að töluvert hafi gengið á undanfarið. Nú sé tími kominn til að staldra við.

„Við höfum náttúrlega keypt hluti í félögum núna í tvígang á liðnu ári, það er að segja ELBU og Ísfiski. Við tökum aldrei lán fyrir neinu þannig að nú stöldrum við bara við og náum jafnvægi aftur. Við getum tekið okkur eitt ár í viðbót til að ná góðu jafnvægi, og ef þetta gengur allt vel upp, sem útlit er fyrir, þá kannski skoðum við aftur í kringum okkur. Umfram allt er að missa ekki fókusinn á því við erum að gera. Halda áfram að kaupa og selja sjávarafurðir sem aldrei fyrr.“

Þótt margt hafi breyst segist Gunnar sannfærður um að alltaf sé hægt að koma auga á tækifæri.

„Fyrir duglegt fólk eru alltaf tækifæri, og fólk með metnað sem getur haft áhrif á virði sjávarfangs á Íslandi, hækkað verðið enn meira. Þótt Íslendingar hafi gert vel í þessum málum, þá er alltaf hægt að gera betur.“